Talið nauðsynlegt að hækka stýrivexti enn frekar

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinntelur að stýrivextir þurfi að hækka enn frekar.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinntelur að stýrivextir þurfi að hækka enn frekar.

Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslensk efnahagsmál kemur fram, að í viðræðum sérfræðinga sjóðsins við íslenska sérfræðinga og embættismenn hafi það verið almenn skoðun, að þörf sé á frekari stýrivaxtahækkunum til að draga úr þenslu og ná verðbólgu niður. Þetta er einnig mat framkvæmdastjórnar sjóðsins. Stýrivextirnir eru nú 13%. Þá séu allir sammála um að breyta þurfi reglum um Íbúðalánasjóð til að auka skilvirkni peningamálastefnu.

Í skýrslu sjóðsins er gert ráð fyrir því að hagvöxtur verði 4% á þessu ári, 1% á því næsta og verði síðan á bilinu 2,5-3,1% á árunum 2008 til 2011. Verðbólga er áætluð 6,1% á þessu ári, 4,5% árið 2007, 3% árið 2008 og 2,5 á ári að jafnaði til 2011.

Fram kemur á heimasíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að skýrslan hafi verið samin eftir heimsókn sérfræðinga sjóðsins hingað til lands í maí sl. Á heimasíðunni er einnig birt fréttatilkynning um útgáfu skýrslunnar og umræðu sem fram fór um hana í framkvæmdastjórn sjóðsins sl. föstudag.

Framkvæmdastjórnin lýsti þar þeirri skoðun, að hagvaxtarhorfur til lengri tíma séu hagstæðar en aukið ójafnvægi sem endurspeglist í miklum viðskiptahalla og verðbólgu, kunni að draga úr hagvexti og fjármálastöðugleika til skamms tíma. Sagðist framkvæmdastjórnin fagna þeim aðgerðum, sem íslensk stjórnvöld hefði kynnt með það að markmiði að draga úr þenslu. Hins vegar væri þörf á frekari aðgerðum til að tryggja mjúka lendingu og viðhalda efnahagslegum stöðugleika.

Framkvæmdastjórnin hvatti til þess að stjórnvöld íhuguðu að fresta fleiri fyrirhuguðum opinberum framkvæmdum og stemma stigu við samneyslu. Gild rök væru fyrir því, að stefna að auknum afgangi á fjárlögum fyrir næsta ár takist ekki að draga úr einkaneyslunni.

Þá lýsti framkvæmdastjórnin þeirri skoðun, að gengisstefnan hafi reynst vel við að framfylgja verðbólgumarkmiðum peningamálastefnunnar. Þótt gengi krónunnar hafi að undanförnu lækkað hraðar en búist var við sé um að ræða viðunandi aðlögum í átt til jafnvægis.

Framkvæmdastjórnin segir, að þrátt fyrir góða afkomu fjármálastofnana á Íslandi hafi hraður vöxtur bankananna aukið rekstraráhættu þeirra, en bankarnir hafi nú gripið til ráðstafana til að draga úr þessari áhættu. Framkvæmdastjórnin lagði hins vegar áherslu á, að sú þróun verði að halda áfram í samvinnu við eftirlitsstofnanir. Þá lýsti framkvæmdatjórnin ánægju með viðbrögð Fjármálaeftirlitsins við þróun mála fyrr á árinu, en stofnunin gerði m.a. álagspróf fyrir fjármálastofnanir, sem að mati framkvæmdastjórnarinnar ættu að auka trú á íslensku fjármálakerfi.

Framkvæmdastjórnin hvatti loks til þess, að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði endurskipulögð hið fyrsta því aukin samkeppni sjóðsins og bankanna á íbúðalánamarkaði hafi grafið undan virkni opinberrar peningamálastefnu og aukið hættu á efnahagslegu ójafnvægi. Hvatti framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins íslensk stjórnvöld til að kanna möguleika á að breyta Íbúðalánasjóði í einkarekinn heildsölubanka, sem muni viðhalda jákvæðum þáttum núverandi húsnæðiskerfis og auka jafnframt heilbrigða samkeppni á fasteignalánamarkaðnum.

Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK