Vandamálið í Palestínu helsti vandi Miðausturlanda sagði Abdullah við Bush

Bush ræddi við Abdullah Jórdaníukonung í Amman í kvöld.
Bush ræddi við Abdullah Jórdaníukonung í Amman í kvöld. Reuters

Abdullah Jórdaníukonungur sagði við George W. Bush Bandaríkjaforseta að það væri mikilvægast fyrir Miðausturlönd að lausn finnist á vandamáli Palestínumanna, en frá þessu greindi Abdel Ilah al-Khatib, utanríkisráðherra Jórdaníu.

„Þetta var mikilvægur og gagnlegur fundur,“ sagði Khatib í viðtali við jórdanska ríkissjónvarpið eftir að fundi þeirra Bush og Abdullah lauk í Amman. Þeir ræddu meðal annars átökin í Miðausturlöndum og ástandið í Írak.

„Konungurinn útskýrði afstöðu Jórdana með afar skýrum hætti, þ.e. nauðsyn þess að raunveruleg framfaraskref verði stigin varðandi málið með Palestínu því ýmis svæðisbundin vandamál, og áskoranir, eiga rætur sínar að rekja til palestínska vandamálsins,“ sagði hann.

„Aðalatriðið er fyrir þetta svæði, í það minnsta hvað varðar íbúana og ríkisstjórnir þeirra, er það að raunverulegar framfarir eigi sér stað sem munu vekja á ný von í brjósti íbúa Palestínu svo þeir geti látið drauma sína rætast.“

Bush og Abdullah ræddu jafnframt trúarátökin sem eiga sér stað í Írak.

Að sögn Khatib var aðalatriði þeirrar umræðu það hvernig koma megi á stöðugleika í landinu.

„Þessi stöðugleiki er nauðsynlegur stöðugleika svæðisins í heild. Trúarátökin sem hafa dunið yfir Írak líkt og fellibylur veldur jafnframt skaða á svæðinu í kring“

Þá lagði Abdullah áherslu á það að Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, og ríkisstjórn hans fyndi fyrir stuðningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert