Viðfangsefnið er að snúa þróun á húsnæðismarkaði við

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Sverrir

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sagði að staða fyrstu kaupenda á húsnæðismarkaði hefði sjaldan verið verri en nú og ekki væri ofsagt að neyðarástand ríkti í þeim málum. Sagði Jóhanna, að viðfangsefnið sé að snúa þróuninni á húsnæðismarkaði við, og að því verkefni yrðu margir að koma.

Staðan á húsnæðismarkaði og hækkun vaxta á íbúðalánum var rædd utan dagskrár á Alþingi í dag að ósk Katrínar Jakobsdóttur, þingmanns VG, sem vildi vita hvernig stjórnvöld ætluðu að bregðast við.

Jóhanna sagði, að á einhverjum mestu þenslutímum í sögu landsins hefðu stjórnvöld og bankarnir sameinast um að stórauka fjármagn til húsnæðiskaupa. Að margra mati hefðu þetta verið alvarleg hagstjórnarmistök og síðan hefðu skuldir heimilanna aukist um 600 milljarða og yfirdráttarlán heimilanna vaxið um 30%.

Jóhanna sagði, að nú færi saman hrikalega hátt húsnæðisverð og einnig háir vextir. Ljóst er, að auðvelda verði fólki að eignast fyrsta húsnæði með betri kjörum en það væri erfitt að bjóða ungu fólki að kaupa húsnæði með þessum vöxtum til 25-40 ára. Jóhanna sagði, að vaxtakjör á langtímalánum á húsnæðismarkaði væru út úr öllu korti og óviðunandi sem framtíðarfjármögnun enda væri óviðunandi, að skammtímaráðstafanir til að slá á þenslu verði til þess að fólk sitji uppi með þessa vexti til áratuga.

Jóhanna sagði, að taka verði upp húsaleigubótakerfið og hugsanlega einnig vaxtabætur. Þá verði að tryggja sérstaklega fyrstu íbúðarkjósendum betri kjör og lækka leiguverð og fjölga leiguíbúðum. Þá nefndi Jóhanna að skoða ætti að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu mynduðu sameiginlegan íbúðarmarkað. Þá þyrfti ríkið, að viðurkenna að húsnæðismál séu velferðarmál og láta útgjöld endurspegla það.

Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að þótt byggt hefði verið gríðarlega mikið af íbúðarhúsnæði á síðustu árum héldi verðið samt áfram að hækka. Rannsaka þyrfti þá þróun sem hefði átt sér stað á byggingamarkaði á síðustu þremur árum.

Jóhanna sagði, að framsóknarmenn hefðu séð um húsnæðiskerfið undanfarin 12 ár og skilið það eftir í algeru þroti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert