Júlíus Vífill gefur kost á sér í 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokks

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Júlíus Vífill Ingvarsson. mbl.is

Júlíus Vífill Ingvarsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sætið í fyrirhuguðu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninga næsta vor. „Ég gaf það út fyrir nokkrum vikum að ég myndi hafa áhuga á því að gefa kost á mér í eitt af forystusætum Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri og gaf ekki frekari upplýsingar um hvað það þýddi,“ segir Júlíus í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Hann segir að ákvörðunin hafi verið nokkuð erfið en hann sé þakklátur öllum þeim sem hafi hvatt sig til þess að fara í 1. sætið.

„Ég hef hugleitt það mjög gaumgæfilega en komst að þessari niðurstöðu,“ segir Júlíus. Hann segir að mikilvægt sé að hugleiða að flokkurinn standi sterkum fótum um þessar mundir og hafi góða málefnastöðu. „Við megum ekki horfa framhjá þeirri staðreynd að meðal borgarbúa stendur flokkurinn betur en hann hefur gert um langt skeið,“ segir Júlíus. Hann segist ennfremur telja að nú sé mikilvægast að þétta hópinn með öflugu fólki og mynda sterkan hóp fyrir næstu kosningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert