Ólína Þorvarðardóttir hættir sem skólameistari MÍ

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, hefur ákveðið að sækjast ekki eftir endurskipun í embætti skólameistara þegar skipunartími hennar rennur út að loknu þessu skólaári, eða í lok júlí í sumar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Ólína sendi frá sér í dag.

Ólína segir ákvörðun sína tekna í kjölfar mikilla deilna í skólanum, að vel athuguðu máli og með velferð skólans og sína eigin að leiðarljósi. Þá segir Ólína menntamálaráðuneytið standa ráðþrota gagnvart deilunni og að sáttasamningur sem lagt var upp með, sé í uppnámi.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Undirrituð hefur ákveðið að óska ekki eftir áframhaldandi skipun í embætti skólameistara við Menntaskólann á Ísafirði eftir lok yfirstandandi skipunartíma, sem rennur út 31. júlí næstkomandi. Hef ég óskað lausnar frá embætti frá sama tíma. Ákvörðun þessa hef ég tekið að vel athuguðu máli á eigin forsendum. Hún er tekin með velferð skólans í huga, í þeirri von að takast megi að leysa þennan mikilvæga vinnustað úr þeim heljargreipum ófriðar sem honum hefur verið haldið í undanfarin misseri.

    Menntaskólinn á Ísafirði hefur á undanförnum 5 árum skipað sér í hóp framsæknustu og best reknu framhaldsskóla landsins. Þann ótvíræða árangur staðfestir skýrsla Félagsvísindastofnunar HÍ um starfsumhverfi Menntaskólans á Ísafirði frá því í desember 2005.

    Það er harmsefni að sá árangur sem náðst hefur í starfrækslu skólans skuli undanfarin misseri hafa verið yfirskyggður af innanhúsdeilum og niðurrifsumræðu sem enn sér ekki fyrir endann á. Óvissa ríkir um áframhald skólaþróunarverkefnisins sem ætlað var að efla frið og eindrægni meðal starfsfólks. Enn hafa ekki allir starfsmenn skólans skuldbundið sig til þátttöku í verkefninu og ekki verður séð að ráðuneytið hafi úrræði til að bregðast við í þeirri stöðu. Fámennur en hávær hópur andstæðinga minna heldur skólanum í herkví, skólanefnd og ráðuneyti standa ráðþrota frammi fyrir vandanum og hafa ekki veitt stjórnendum eða hinum almenna starfsmanni þann tilstyrk sem þurft hefði. Við þessar aðstæður er stjórnendum í reynd gert ókleift að vinna að framför skólans – og við svo búið má ekki standa lengur.

    Um leið og ég tilkynni brotthvarf mitt úr starfi skólameistara Menntaskólans á Ísafirði skora ég á menntamálaráðuneytið og skólanefnd að standa til fulls við forsendur tillögu þeirrar sem kynnt var starfsmönnum af fulltrúum Félagsvísindastofnunar og ráðuneytisins þann 6. desember s.l. svo tryggja megi framtíðarstarfsfrið í skólanum.

    Þá mánuði sem eftir eru af starfstíma mínum hyggst ég nýta til þess að búa í haginn fyrir komandi skólaár og ljúka verkefnum sem bíða úrlausnar fram að þeim tíma. Að því loknu vonast ég til þess að geta staðið upp frá vel unnu verki og kvatt nemendur skólans og starfsfólk í fullum friði og sátt.

    Menntaskólanum á Ísafirði, stjórnendum hans, nemendum og dyggum starfsmönnum óska ég allrar blessunar í bráð og lengd.

    Ísafirði 25. febrúar 2006,
    Ólína Þorvarðardóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert