Allir sakaðir um brot á lögum um vörsluskatta

Héraðsdómur Reykjavíkur er fjölskipaður í málflutningi félaga sem tengdust Frjálsri …
Héraðsdómur Reykjavíkur er fjölskipaður í málflutningi félaga sem tengdust Frjálsri fjölmiðlun. Ingveldur Einarsdóttir er dómsformaður, en auk hennar skipa dóminn Símon Sigvaldason héraðsdómari (t.v.), og Ólafur Kristinsson, endurskoðandi hjá PricewaterhouseCoopers, en myndin er tekin við málflutninginn í gær. Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is
Fimm ákærðu í máli félaga tengdum Frjálsri fjölmiðlun ehf. gáfu skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, en þá var fram haldið aðalmeðferð í málinu. Aðalmeðferðin hófst á mánudag þegar fyrri helmingur þeirra tíu sem ákærðir eru komu fyrir réttinn. Mennirnir eru allir sakaðir um brot á lögum um vörsluskatta.

Um er að ræða dómsmál vegna alls átta félaga sem voru öll utan eins tengd Frjálsri fjölmiðlun. Félögin hafa öll hætt starfsemi, eins og Frjáls fjölmiðlun, sem lýst var gjaldþrota sumarið 2002. Ákært í níu liðum, fyrir umboðssvik í einu tilviki, en vegna brota á reglum um skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda í öðrum tilvikum.

Aðalmeðferð verður fram haldið í dag, en reiknað er með að munnlegur málflutningur sækjanda og verjenda hefjist á morgun, fimmtudag.

Þrír sakborninga eru ákærðir í fleiri en einum ákærulið, þeir Sveinn Eyjólfsson, Eyjólfur Sveinsson - sem saman áttu og stýrðu Frjálsri fjölmiðlun, og Marteinn Kristinn Jónasson. Sveinn og Eyjólfur gáfu skýrslu fyrir dómi á mánudag, en Marteinn kom fyrir dóminn í gærmorgun.

Marteinn er í fyrsta lagi ákærður ásamt öðrum fyrir að hafa sem stjórnarformaður Markhússins-markaðsstofu ekki staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda, svokölluðum vörslusköttum, að upphæð tæpar 7 milljónir króna á árunum 2000 og 2001. Marteinn játaði það brot sitt við þingfestingu málsins, með fyrirvara um að upphæðin sé of há.

Marteinn gerði grein fyrir því að hann hafi verið stjórnarformaður þar til hann ákvað að ganga úr stjórn í lok árs 1999. Það hafi hann gert vegna þess að stjórnin hafi verið svo gott sem óstarfhæf, fulltrúar stærstu hluthafa, Frjálsrar fjölmiðlunar og Landssímans, hafi ekki getað unnið saman.

Hann sagðist svo hafa gengið aftur inn í stjórn félagsins um áramótin 2001-2002, en þá hafi verið ljóst að allt stefndi í þrot. Tilgangur sinn með því að ganga inn í stjórnina hafi eingöngu verið sá að freista þess að selja símsvörunarþjónustuna 1818 út úr rekstrinum til að rekstur hennar gæti haldið áfram.

"Eigendur höfðu ekki áhuga á að bjarga þessu félagi"

"Mér hugnaðist ekki sú hugsun að Markhúsið færi á hausinn," sagði Marteinn. Hann sagði þó að til hafi þurft að koma aukið fé til rekstursins, og það hafi hluthafarnir ekki viljað leggja til. "Það var útséð að eigendur höfðu ekki áhuga á að bjarga þessu félagi."

Marteinn sagði sér ekki hafa verið ljóst að skuld væri á vörslusköttum snemma árs 2002, hann hafi hreinlega ekki lagt sig fram við að fylgjast með því, enda eingöngu kominn aftur í stjórn til að ná 1818 út úr rekstrinum. Hann hafi svo ætlað að freista þess að ná nauðarsamningum áður en Markhúsið færi í gjaldþrot.

Jón H. Snorrason, saksóknari og yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, benti Marteini á að aldrei hafi verið skráð hjá hlutafélagaskrá að hann hafi gengið úr stjórn, enda sé hann m.a. ákærður vegna atburða sem urðu árið 2000. Marteinn sagðist einfaldlega ekki geta borið ábyrgð á handvömm annarra sem hafi átt að senda tilkynningu til hlutafélagaskrár.

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Marteins, spurði hann hvort hann hafi litið svo á að félagið skuldaði virðisaukaskatt, og sagði Marteinn svo ekki vera. Fyrirtækjum sé skylt að halda eftir virðisaukaskatti af m.a. innheimtum kröfum, en þegar ekki náist að innheimta kröfur sé augljóslega enginn virðisaukaskattur til að halda eftir.

Marteinn er einnig ákærður vegna starfs síns sem framkvæmdastjóri Nota bene hf., ásamt tveimur stjórnarmönnum. Þar er ákært vegna brots á reglum um vörsluskatta á árunum 2001 og 2002, en upphæðin sem ákært er vegna nemur 32,8 milljónum króna. Marteinn neitaði sök í þessum ákærulið við þingfestingu.

"Veruleikafirrtur maður að leika sér í excel"

Í þessu máli bar Marteinn fyrir dómi að hendur sínar hafi verið bundnar. Ekki hafi verið til peningar til þess að standa skil á vörslusköttum, enda stórar útistandandi kröfur tapast, og hluthafar hafi ekki viljað leggja til aukið hlutafé. Hann staðfesti að vörsluskattar hafi ekki verið greiddir, en heilmikið hafi þó verið greitt inn á skuldina, auk þess sem varla hafi verið hægt að standa skil á virðisaukaskatti vegna krafna sem ekki hafi tekist að innheimta.

Marteinn sagðist hafa vitað af skuldinni, en hann hafi ekki getað greitt hana. Það litla fé sem hann hafi haft úr að spila hafi farið í að greiða starfsmönnum laun, því ef hann hefði ekki gert það hefði hann í raun verið að taka ákvörðun um að loka félaginu. Hann sagði ábyrgðina liggja hjá stjórn félagsins, hann hafi ítrekað gert henni grein fyrir stöðu og beðið um aukið hlutafé, án þess að nokkuð hafi verið aðhafst.

Ásgeir Þór Árnason, verjanda Karls Þórs Sigurðssonar, fyrrverandi stjórnarmanns í Nota bene og eins ákærðu í málinu, spurði Martein hvort honum hafi verið falið af stjórn að skila átta mánaða uppgjöri. Marteinn sagði það rétt, en ekki hafi verið til peningar til að borga endurskoðanda.

Marteinn var líka spurður hvort hann kannaðist við starfsáætlanir sem hann lagði fyrir stjórn, þar sem ástandið sýnist mun betra en það var í raun og veru. Hann sagðist kannast við að hafa gert þessar áætlanir. "[Ég] var bara veruleikafirrtur maður að leika sér í excel," sagði hann, og sagði stjórn vel hafa verið ljóst að til að þessar áætlanir ættu sér stoð í raunvöruleikanum þyrfti fyrst að greiða niður skuldir. Þeir hafi hins vegar ekki haft áhuga á að bjarga félaginu.

Greiddu ekki laun

Þriðji og síðasti ákæruliðurinn beinist gegn Marteini einum, en þar er hann, sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Info skiltagerð ehf., sakaður um að hafa ekki staðið skil á vörslusköttum. Eru upphæðirnar sem hann er ákærður vegna u.þ.b. 14,4 milljónir króna. Marteinn hefur játað sök vegna þessa ákæruliðs, en gerir alvarlegar athugasemd við hversu há upphæðin sé. Info skiltagerð var ekki tengd Frjálsri fjölmiðlum, ólíkt öðrum félögum sem ákært er vegna í málinu.

Marteinn lýsir ástandinu í Info skiltagerð sem "herfilegri", félagið hafi verið undirfjármagnað frá fyrsta degi, og ekki hafi verið fé fyrir launum, hvað þá öðru. Spurður hvaða fyrirvara hann geri við upphæðir sagði Marteinn að hann hafi ítrekað óskað eftir því að lögregla kannaði hvaða laun hafi í raun verið greidd, Ábyrgðasjóður launa hafi þannig gengið í ábyrgð fyrir greiðslu um 20 milljóna króna, og varla sé reiknað með því að félagið inni af hendi greiðslu vegna launa sem það hafi ekki greitt.

Sækjandi spurði hvort hann teldi sig þar með lausan undan ábyrgð vegna þess að Ábyrgðasjóður launa hafi greitt starfsmönnunum. Marteinn sagði að þess sé einungis krafist að haldið sé eftir staðgreiðslu af greiddum launum, og ef engin laun séu greidd sé ekki hægt að halda neinu eftir. Sama gildi með virðisaukaskatt af kröfum sem aldrei fáist greiddar, ómögulegt sé að greiða skatt af einhverju sem aldrei innheimtist.

Sverrir Viðar Hauksson, sem var framkvæmdastjóri Markhússins-markaðsstofu ehf. til 30. nóvember 2000, var ákærður fyrir brot á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda hjá Markhúsinu frá september 2000 til apríl 2001, að upphæð rúmlega 10 milljóna króna.

"Félagið var í herkví eigendanna"

Sverrir sagði að hann hafi sagt upp störfum í júní 2000 vegna versnandi stöðu félagsins, og vegna þess að svo hafi virst sem ekkert væri verið að gera til að rétta það af. "Félagið var í herkví eigendanna. Það hamlaði rekstrinum og rekstrarumhverfinu," sagði Sverrir í héraðsdómi í gær.

Hann sagðist hafa tekið sumarfrí í ágúst, og eftir það varla haft viðveru í fyrirtækinu, hvað þá sinnt störfum framkvæmdastjóra. Raunar kom fram að hann hafi sent Eyjólfi Sveinssyni, sem hann taldi starfandi stjórnarformann, uppsagnarbréf sitt, en hann hafi ekki veitt því viðtöku, og pósturinn endursent það á skrifstofu Markhússins. Þar hafi hann hins vegar ekki verið á þeim tíma og því ekki orðið var við að bréfið komst ekki alla leið. Sverrir sagðist ennfremur ekki hafa sagt starfsmönnum eða viðskiptavinum af uppsögn sinni til að fyrirtækið gæti haldið andlitinu. Hann hafi þó gert uppsögn sína opinbera í lok september.

Spurður af verjanda sínum hvort hann hafi tilkynnt þá ákvörðun stjórnarfundar að Eyjólfur Sveinsson ætti að taka við stjórnarformennsku sagðist Sverrir hafa gert það. Þar sem hann væri ekki löglærður hafi verið formgalli á tilkynningu til hlutafélagskrár, og hún því endursend. Hann hafi ætlað að fá lögmann til að ljúka útfyllingunni, en af því hafi ekki orðið vegna þess að Eyjólfur hafi ætlað að benda á lögmann en ekki gert það.

Karl Þór Sigurðsson, sem var stjórnarmaður í Nota bene hf., er ákærður vegna þess að félagið stóð ekki skil á vörslusköttum á tímabilinu frá júlí 2001 til apríl 2002. Um er að ræða vanskil sem nema 32,8 milljónum króna.

Ósáttur við störf framkvæmdastjóra

Karl sagðist fyrir rétti í gær hafa tekið stöðu stjórnarmanns vegna starfs síns sem framkvæmdastjóri Hans Pedersen, sem átti hlut í félaginu. Hann segir að Eyjólfur Sveinsson hafi einnig verið í stjórn, ásamt fleirum, en Eyjólfur hafi eðlilega haft þar mest að segja í skjóli eignar á þriðjungi hlutabréfa í félaginu.

Staða Nota bene var afar slæm á þessum tíma, og segist Karl hafa beitt sér sem stjórnarmaður til þess að bæta þar úr. T.d. hafi hann fengið Jón Steingrímsson, lögmann, til að vinna úttekt á félaginu, og hann hafi beitt sér fyrir því að fá endurskoðendur til að taka félagið til átta mánaða uppgjörs.

Karl ber Marteini framkvæmdastjóra ekki vel söguna, segir hann ekki hafa staðið sig í að veita Jóni Steingrímssyni upplýsingar, og hann hafi ekki sinnt því að fá endurskoðendurna til að vinna uppgjörið þrátt fyrir að Karl hafi tryggt að þeir væru tilbúnir til að vinna það, en félagið skuldaði endurskoðendunum talsvert fé.

Karl segir Martein hafa fengið ítrekuð og bein fyrirmæli frá stjórn um að greiða vörsluskatta, en því hafi ekki verið sinnt. Honum hafi t.d. verið bent á að selja mætti eignir og innheimta útistandandi fé til að fá lausafé til að greiða vörsluskatta.

Spurður um áætlanir sem Marteinn kynnti fyrir stjórn sagði Karl að í ljós hafi komið að þær hafi ekki verið réttar. Marteinn hafi verið spurður út í áætlanirnar, m.a hvort tekið hafi verið tillit til vaxta og skulda, en áætlanirnar hafi verið sagðar standast.

Spurður af verjanda Marteins hvers vegna milljónir hafi verið greiddar út úr Nota bene til Kassagerðar Reykjavíkur, eins eigendanna, sagði Karl að hann hafi alltaf viljað nota allt tiltækt fé til að greiða vörsluskatta, en hann hafi ekki verið einn í stjórn, og í þessu tilviki hafi hann líklega lent undir.

Póstflutningar í fjársvelti

Valdimar Grímsson var framkvæmdastjóri Póstflutninga ehf. á tímabili árið 2001. Hann er ákærður vegna brota gegn lögum um virðisaukaskatt, en á hans tíma sem framkvæmdastjóri átti félagið að greiða samtals tæplega 1,6 milljónir króna.

Valdimar sagði að ágreiningur hafi verið um það hvort greiða ætti virðisaukaskatt af starfsemi félagsins. Talið hafi verið að ekki ætti að greiða skatt, en yfirvöld hafi verið á öðru máli. Félagið hafi fengið bréf vegna þessa í ágúst 2001, og hafi hann sent svarbréf til sýslumanns þar sem þeirri ákvörðun að láta félagið greiða skattinn var mótmælt.

Sækjandi benti á að bréfið fyndist ekki hjá sýslumanni, og Valdimar hafi ekki getað framvísað afriti af því bréfi. Starfsmaður þar beri ennfremur að Valdimar hafi lagt fram gögn í eigin persónu. Það kannaðist Valdimar ekki við, og sagðist aldrei hafa hitt manninn.

Valdimar sagði að um 700 þúsund krónur hafi verið til í félaginu þegar hann hætti, en hann segist hafa hætt vegna slæmrar stöðu félagsins. Það hafi verið í sífelldu fjársvelti, enda hafi gengið erfiðlega að innheimta skuldir Fréttablaðsins ehf., sem var í eigu Frjálsrar fjölmiðlunar. Valdimar sagði að hann og fleiri hafi átt inni laun hjá félaginu, en hann hafi greitt allar aðrar útistandandi skuldir sem hann hafi vitað af.

Landsbankinn vildi ekki nauðarsamninga

Síðastur ákærðu til að gefa skýrslu fyrir dómi var Ólafur Haukur Magnússon, sem var framkvæmdastjóri ÍP-prentþjónustunnar, sem var rekin samhliða Ísafoldarprentsmiðjunni. Hann er ákærður vegna brota á lögum um vörsluskatta á tímabilinu frá nóvember 2001 til apríl 2002, að upphæð samtals um 6,9 milljóna króna.

Ólafur sagði að félagið hefði verið órjúfanlegur hluti af starfsemi Ísafoldarprentsmiðjunnar, en rekstur hafi verið aðskilinn vegna sögulegra ástæðna. Hann sagði veruleg vanskil hafa verið á þessum tíma, félagið hafi afskrifað 90 milljónir króna á árinu 2000, og reksturinn því verið neikvæður um 80 milljónir.

Samkomulag hafi verið gert við yfirvöld, en í því fólst að allt fé sem rann til að greiða skuldir á opinberum gjöldum hafi runnið upp í höfuðstólinn, og því hafi elstu skuldirnar verið greiddar fyrst.

Vegna eignatengsla við Frjálsa fjölmiðlun var ekki hægt að leita nauðarsamninga fyrir ÍP-prentþjónustu, og því segir Ólafur að hann hafi keypt félagið, og reynt að leita nauðarsamninga. Í ljós hafi þá komið að Landsbankinn, sem átti stærstu kröfurnar á félagið, hafi engan áhuga haft á slíku, hann hafi haft það á tilfinningunni að þar á bæ hafi markmiðið verið að keyra félagið í þrot. Því hafi félagið endað í gjaldþroti.

Sigurður Þóroddsson, verjandi Ólafs, benti á ósamræmi í framburði Ólafs í lögregluskýrslu annars vegar, og í skýrslu sem hann gaf hjá skattrannsóknarstjóra hins vegar. Ólafur sagði það helgast af því hvernig var spurt, en rangt sé eftir sér haft í lögregluskýrslu að hann hafi óskað eftir því að greiðslur á vörslusköttum yrðu notaðar til að greiða niður höfuðstólinn.

Spurður af Ragnari Hall, verjanda Sveins Eyjólfssonar, sagði Ólafur að orð sín væru rangt túlkuð af lögreglu í annarri skýrslu, þar sem haft er eftir honum að Ísafold hafi verið haldið í spennitreyju af félögum Frjálsrar fjölmiðlunar, og að tekin hafi verið ákvörðun um að greiða ekki vörsluskatta. Enginn taki slíka ákvörðun, það gerist einfaldlega þegar engir peningar séu til.

Staðan verri en gert var ráð fyrir

Fjölmörg vitni komu einnig fyrir dóminn í gær. Jón Steingrímsson, lögmaður sem vann úttekt á starfsemi Nota bene, bar vitni í gegnum síma þar sem hann var staddur erlendis. Hann bar um aðild sína að málinu, stöðu félagsins á þeim tíma. Staðan var að hans sögn verri en menn hafði grunað miðað við áætlanir Marteins framkvæmdastjóra. Eignir sem gert var ráð fyrir hafi ekki verið til, vantað hafi upplýsingar um kostnað og ekki tekið tillit til skulda.

Sigurður Steingrímsson, sem var daglegur stjórnandi Dagsprents, útgáfufélags Dags á Akureyri bar einnig vitni um starfsemi félagsins, og aðdraganda þess að gerðir voru nauðarsamningar. Hann sagði að við gerð nauðarsamninga hafi verið samið við sýslumann vegna skulda við hið opinbera. Sér sýnist hins vegar að sýslumaður hafi innheimt meira en hann átti að gera samkvæmt þeim samningi. Því hafi hann talið að ekki væri um skuld að ræða á opinberum gjöldum þar sem eftir væri að reikna endurgreiðslu vegna oftöku sýslumanns.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert