Norðurál greiðir OR 2,1 kr. á kílóvattstund

Norðurál borgar Orkuveitu Reykjavíkur 2,1 krónu á hverja kílóvattstund af raforku vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Grænmetisbændur sem teljast til stórnotenda borga um fjórar krónur á kílóvattstund. Frá þessu greinir Fréttablaðið í dag.

Fram kemur að Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hafi staðfest þetta í samtali við blaðið að söluverð á raforku til Norðuráls vegna fyrirhugaðs álvers fyrirtækisins í Helguvík væri tæplega 2,1 króna á hverja kílóvattstund af rafmagni. Þá segir að þetta sé í fyrsta skipti sem orkuverð opinbers orkufyrirtækis til stóriðju er gefið upp með svo nákvæmum hætti.

Þá kemur jafnframt fram að Bjarni Helgason, formaður félags garðyrkjubænda, segi bændur greiða að meðaltali um fjórar krónur á kílóvattstund. Engir einstakir notendur raforkunnar séu sambærilegir við álfyrirtækin hér á landi hvað varði kaup á raforku en álverin þurfa margfalt meiri raforku en aðrir einstakir kaupendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert