Embættisveitingar innan marka

Geir H. Haarde í ræðustóli á Alþingi.
Geir H. Haarde í ræðustóli á Alþingi. mbl.is/Ómar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að hann teldi að í þeim þremur málum sem komið hafa upp að undanförnu þar sem embættisveitingar ráðherra hafa verið gagnrýndar, hafi ráðherrar verið innan marka sinna valdheimilda og undirbúið embættisveitingarnar eftir bestu samvisku.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, tók málið upp í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og vísaði m.a. til laga um ráðherraábyrgð og harðrar gagnrýni Sigurðar Líndals, prófessors, á skipun héraðsdómara í grein í Fréttablaðinu í dag. Segir Sigurður þar að í skipuninni skíni í taumlausa vildarhyggju og valdboðið sé sett í öndvegi. Með þetta að leiðarljósi sé alræði og geðþótta opnuð leið og væru nærtækust dæmi frá Þýskalandi eftir 1930.

Geir sagði, að ráðherra væri  falið að fara með vald í málum sem þessum. Sagðist hann fullyrða að iðnaðarráðherrann hefði stuðst við gild rök og bestu samvisku og dómgreind þegar hann skipaði í tvö embætti og það sama ætti við um settan dómsmálaráðherra varðandi skipun héraðsdómara.

Geir sagði, að það væri ekki nýtt að embættisveitingar væru umdeildar og sjálfur hefði hann verið gagnrýndur fyrir tvær skipanir í embætti hæstaréttardómara. Sagðist Geir ekki vita betur en báðir þeir dómarar hefðu staðið sig vel í starfi.

Þá sagði Geir að ummæli Sigurðar Líndal í Fréttablaðinu í dag væru honum til minnkunar.

Árni Þór lýsti vonbrigðum yfir því, að Geir hefði ekki í svari sínu  tekið afdráttarlausa afstöðu með lýðræðinu og gegn misbeitningu pólitísks valds.

Geir sagðist telja óeðlilegt ef einhverjum dytti í hug, að dómarastéttin hefði sjálfdæmi um hverjir kæmust í þeirra hóp. Á endanum bæri hið pólitíska vald ábyrgðina á stöðuveitingum og það væri út í hött að segja, að menn hefðu tekið afstöðu gegn lýðræðinu. Bað hann Árna Þór að misbeita ekki rétti sínum til málfrelsis í ræðustóli Alþingis með þeim hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert