Tvenns konar grundvöllur fyrir hugsanlegum bótagreiðslum

Róbert R. Spano.
Róbert R. Spano.

Róbert R. Spano, formaður nefndar sem fjallaði um starfsemi Breiðavíkurheimilisins, segir að tvenns konar grundvöllum geti verið fyrir því að ríkið greiði fyrrverandi vistmönnum skaðabætur.

Annars vegar að þeir hafi ekki verið verið vistaðir þar í samræmi við lög um vistunarheimilið en samkvæmt lögum frá 1947 átti að vista drengi á heimilinu sem höfðu gerst sekir um lögbrot eða voru á glapstigum. Sterkar vísbendingar séu hins vegar um, að drengir hafi einnig verið vistaðir þar á öðrum forsendum, svo sem hátterni eða aðstæðum foreldra.

Hins vegar að yfirvöld hafi ekki komið í veg fyrir það með viðunandi eftirliti að börn í umsjá þeirra yrðu fyrir illri meðferð sem ylli þeim skaða.

Róbert sagði, að mjög margt hefði farið miður í Breiðavík en að aðstæður þar hafi þó verið mjög mismunandi eftir tímabilum forstöðumanna. Við upplýsingaöflun nefndarinnar hafi einnig komið fram mjög jákvæðar sögur um samskipti starfsmanna og vistmanna og það hafi komið nefndarmönnum á óvart hve samstarfsvilji fyrrum starfsmanna og vistmanna hafi verið mikill. 

Spurður um það hvort framburður starfamanna væri trúverðugur sagði hann Gísla H. Guðjónsson réttarsálfræðing hafa verið fenginn til að leggja almennt mat á það. það hafi verið niðurstaða hans að það mikill samgljómur hafi verið í frásögnum að telja verði að þær hafi almennt sannleiksgildi.  Ekki hafi hins vegar verið lagt mat á trúverðugleika einstakra frásagna eða einstaklinga enda hafi það ekki verið ætlun eða hlutverk nefndarinnar að varpa ábyrgð á einstaka starfsmenn.

Róbert sagði einnig að ekki hefði verið gerður greinarmunur  á því hvort drengir hefðu verið gerendur eða þolendur eineltis eða ofbeldis en í mörgum tilfellum hafi sömu drengir verið hvoru tveggja. Því telji hann að ef til bótagreiðslna komi hljóti ákvarðanir um slíkt að vera byggðar á almennum forsendum.

Þá segir hann nefndina telja hugsanlegt að tvinna megi saman áframhaldandi geðheilbrigðisþjónustu og skaðabætur, ákveði yfirvöld að greiða skaðabætur þrátt fyrir að lagaleg skaðabótaskylda vegna málefna Breiðavíkur sé fyrnd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert