Borgarstjóri mun leiða flokkinn gegnum prófkjör og kosningar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, á fundi í Valhöll í dag.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, á fundi í Valhöll í dag. mbl.is/G. Rúnar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á fundi í Valhöll í dag, að eftir innan við ár muni taka við borgarstjóri á vegum Sjálfstæðisflokksins, sem muni leiða borgarstjórnarhóp flokksins gegnum  prófkjör seint á næsta ári og í gegnum borgarstjórnarkosningarnar 2010.

Geir var á fundinum spurður um borgarmálin og sagði að það væri háttur sjálfstæðismanna að leysa vandamálin og það myndu þeir gera.

„Vilhjálmur Þ. er auðvitað oddviti en við erum líka með ljómandi fína talsmenn sem koma fram í ýmsum málaflokkum. En það skiptir miklu máli fyrir okkur að fylkja okkur að baki okkar forystufólki. Við eigum ekki að taka þátt í því þegar verið að tala niður okkar ágætu fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur... Það mun taka við borgarstjóri á okkar vegum eftir innan við ár og hann mun leiða þennan hóp bæði í gegnum prófkjör seint á næsta ári og svo í gegnum borgarstjórnarkosningarnar 2010,“ sagði Geir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert