Lögregla á slóðum ísbjarnarins

AP

Lögreglan á Sauðárkróki er komin á slóðir ísbjarnarins sem sást við Þverárfjallsveg í Skagafirði í morgun. Lögreglan fann dýrið rétt sunnan við Þverárfjallsveg við afleggjarann út á Skaga nú fyrir skömmu. Að sögn lögreglunnar er verið að kanna hvort hægt verður að ná dýrinu lifandi.

Að sögn lögreglu er ísbjörninn fullvaxið dýr og standa vonir til að hægt verði að ná honum lifandi, að öðrum kosti þurfi að fella dýrið. Lögregla hefur ekki lokað svæðinu en reynir að halda forvitnum vegfarendum frá.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í morgun bárust lögreglunni á Sauðárkróki fjórar ábendingar um ísbjörninn. Einn þeirra sem sá dýrið, Þórarinn Leifsson, bóndi á Keldudal í Skagafirði, sagði í samtali við mbl.is að ísjakar hafi verið á Húnaflóa í vetur og gæti ísbjörninn því hafa verið hér í einhvern tíma.

Páll Hersteinsson, prófessor við líffræðiskor Háskóla Íslands, telur að umhverfisstofnun eigi að taka ákvörðun um afdrif dýrsins. Sagði hann í samtali við mbl.is að á Íslandi sé engin sérfræðiþekking til í að ná hvítabjörnum lifandi og það væri mjög kostnaðarsamt að koma honum til síns heima.

Hvítabirnir eru ekki friðhelgir á landi en þeir eru friðaðir á hafís eða sjó. Heimilt er að fella þá ef talið er að annað hvort fólki eða búfénaði stafi hætta af þeim, að sögn Páls.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert