Metaðsókn í offitumeðferð

Það stefnir í að allt að 400 manns óski eftir offitumeðferð á Reykjalundi í ár sem er nýtt met. Ludvig Guðmundsson yfirlæknir á næringar og offitusviði Reykjalundar segir  að svo virðist sem feitt fólk verði sífellt feitara og bilið milli þeirra sem séu í eðlilegum holdum og hinna sem eru of feitir sé að aukast.  Hann segir hinsvegar að það skorti íslenskar rannsóknir til að skoða þetta frekar.  Næringar og offitusvið Reykjalundar getur ekki sinnt nema um 180 manns á ári.

Kristnesspítali er líka með atferlismeðferð og annar um fjörutíu til fimmtíu á ári. Einhverjir tugir leita líka til Heilsustofnunarinnar í Hveragerði en þar er þó skilyrði að menn séu ekki á leið í skurðaðgerð. Reykjalundur getur ekki sinnt öllum sem þangað leita þrátt fyrir ströng inntökuskilyrði en sjúklingar þurfa að vera mjög feitir eða með offitustuðul  upp á 45 til 47 prósent. Þá er gerð krafa um að sjúklingar sýni jafnar framfarir meðan á meðferðinni stendur til að fá að halda áfram. Alls getur meðferðin tekið um þrjú ár  og lýkur þá oftast með magahjáveituaðgerð sem er framkvæmd á Landspítalanum.

Atferlismeðferð  sem lýkur með magahjáveituaðgerð  kostar um tvær milljónir króna en þá er líka tekið tillit til vinnutaps vegna meðferðarinnar.. Heilsuhagfræðilegar rannnsóknir hafa leitt í ljós að hún borgar sig upp á átta árum en þá er ekki búið að taka tillit til betra lífs, aukinnar þátttöku í samfélaginu og framtíðarmöguleika..

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert