Allir eru sekir

Gauti Kristmannsson.
Gauti Kristmannsson. mbl.is/Frikki

Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingafræði við Háskóla Íslands, hefur skrifað grein sem er birt á vef New York Times í dag undir yfirskriftinni „The Ice Storm". Dregin er upp mynd af því ástandi sem Íslendingar standa frammi fyrir í dag, ástandi sem minni einna helst á sögu eftir Franz Kafka. Þar sem allir eru sekir.

Gauti segir ástandið á Íslandi vera óraunverulegt. Aðeins sé hægt að bera það saman við atburði líkt og fall Berlínarmúrsins árið 1989 og hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september árið 2001. Eitthvað endanlegt, en um leið óskiljanlegt, hafi gerst.

Nú séu Íslendingar ekki áhorfendur heldur þátttakendur.

Gauti lýsir því hvernig íslenskir bankastarfsmenn séu farnir að missa vinnuna, hlutabréf hafi hríðlækkað í verði, enginn vilji snerta á krónunni, sem sé í frjálsu falli, og framkomu vinaþjóða, sérstaklega Breta, gagnvart Íslendingum. Ástandinu megi líkja við handriti sem fjalli um martröð alþjóðavæðingarinnar.

Hann segir að Íslendingar séu enn að reyna að átta sig á því sem hafi gerst. Áfallið sé svo mikið að hvorki sé farið að bera á sorg né reiði af fullri alvöru. Sjálfstæði Íslendinga sem þjóðar sé ógnað. Nú þurfi menn að reiða sig á aðstoð frá Rússum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Hann bendir á að Íslendingar séu þó ekki alsaklausir af því sem hafi gerst. Þeir hafi tekið þátt í góðærinu og tileinkað sér kapítalismann - sem hann líkir við spilavíti án eiganda - gagnrýnislaust.

Hann lýkur greininni á þeim orðum að endirinn á því sem Íslendingar séu að fara í gegnum muni verða óvæntur, líkt og búast megi við í sögum Franz Kafka.

Það er bara vonandi að við breytumst ekki risvaxna bjöllu.

Grein Gauta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert