Rekstrarbilun olli rafmangsleysi

Frá Kárahnjúkavirkjun
Frá Kárahnjúkavirkjun Steinunn Ásmundsdóttir

Rafmagnsleysið í álveri Alcoa í Reyðarfirði í nótt varð vegna rekstrarbilunar í Kárahnjúkavirkjun, að sögn Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar. Tilviljun réð því að tveimur vélum sló út með stuttu millibili með þeim afleiðingum að straumur fór af álverinu. Viðgerðin gekk greiðlega.

„Þetta var svona týpísk rekstrarbilun, í rauninni eins og þegar öryggi fer af heima hjá þér ef þú ert að elda á of mörgum hellum,“ segir Þorsteinn. „Þetta er í sjálfu sér eitthvað sem getur gerst í einni vél án þess að nokkur taki eftir því, en þarna sló út tveimur vélum með stuttu millibili og þá fór straumurinn af. Þetta gerist vegna þess að það er tölvustýring á virkjununum til að halda öllum mæligildum innan marka, en við vissar aðstæður geta þau farið út fyrir mörkin. Þá fer rofinn, til að tryggja að það verði ekki bilun.“

Rafmagnslaust varð í álverinu í um 30-60 mínútur en að sögn Þorsteins gekk vel að keyra vélarnar upp aftur og ættu ekki að verða neinir eftirmálar né tjón af biluninni. „Síðan verður farið í greiningarferli til að skoða betur hvað gerðist. Þetta getur hafa verið smávægileg bilun í hugbúnaði,“ segir Þorsteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert