Þrjú tilboð bárust í Árvakur

Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.
Morgunblaðshúsið í Hádegismóum. mbl.is/ÞÖK

Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. bárust þrjú skuldbindandi tilboð í nýtt hlutafé Árvakurs hf., útgáfufélag Morgunblaðsins.

Upphaflega átti að skila inn skuldbindandi tilboðum þriðjudaginn 17. febrúar en fresturinn var tvívegis framlengdur.

Fimm félög sendu inn óskuldbindandi tilboð og voru fjögur þeirra valin til áframhaldandi þátttöku. Þrjú þeirra hafa nú skilað inn skuldbindandi tilboðum.

Tilboðin voru opnuð í dag klukkan 14 í viðurvist Margrétar Flóvenz, löggilts endurskoðenda frá KPMG, sem var tilnefnd sem óháður matsaðili og samþykktur af öllum bjóðendum.

Almenningshlutafélag, undir forystu Vilhjálms Bjarnasonar og fleiri, skilaði inn tilboði. Bogi Emilsson, einn aðstandenda hópsins segir að hann telji tilboð þeirra sanngjarnt. Rétt um þúsund manns hafa skráð sig fyrir hlutafé í félaginu.

Hópur sem Óskar Magnússon, hæstaréttarlögmaður leiðir, skilaði inn tilboði og þá kom tilboð frá ástralska fjárfestinum Steve Cosser.

Að sögn Óskars telur hann ekki tímabært að upplýsa um hverjir standa að tilboðinu með honum nema að tilboði hópsins verði tekið. 

Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka mun á næstu dögum vinna úr tveimur hæstu tilboðunum, skoða forsendur og skilyrði og tilkynna um hæstbjóðanda í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert