Ríkastir stórjuku sinn hlut

Ásdís Ásgeirsdóttir

„Tekjuhæstu 615 fjölskyldurnar á Íslandi (1% fjölskyldna) fengu í sinn hlut 4,2% af heildartekjum fjölskyldna í landinu árið 1993, þ.e. fjórfaldan hlut, en árið 2007 var hlutur þeirra af tekjum allra fjölskyldna orðinn tuttugufaldur, eða 19,8%.“ Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknarritgerðar Þjóðmálastofnunar „Heimur hátekjuhópanna: Um þróun tekjuskiptingar á Íslandi 1993 til 2007“ eftir Arnald Sölva Kristjánsson hagfræðing og Stefán Ólafsson, forstöðumann Þjóðmálastofnunar.

Þeir beina sjónum sínum sérstaklega að tekjum hátekjuhópa hér á landi og byggja úrvinnsluna á gögnum frá ríkisskattstjóra.

Meginniðurstöður þeirra eru að tekjuójöfnuðurinn hafi aukist stórum skrefum hér á landi á seinustu árum. Fram kemur að ríkustu 10% fjölskyldna hafi aukið hlut sinn af heildartekjum fjölskyldna úr 21,8% árið 1993 í 39,4% árið 2007. Hjá hinum 90% fjölskyldnanna minnkaði tekjuhlutdeildin að sama skapi úr um 78% í rúm 60% á sama tíma.

„Frjálshyggjuáhrifa tók að gæta á Íslandi með sívaxandi þunga frá um 1995 og einmitt frá þeim tíma tók tekjuskiptingin að verða mun ójafnari en áður hafði verið. Ákveðin tímamót urðu við árið 2003 en frá þeim tíma jókst hraðinn í ójafnaðarþróuninni til muna. Aukning ójafnaðar á Íslandi virðist hafa verið mun örari en almennt var í OECD-ríkjunum,“ segir í greininni.

Í ljós kemur að efsta 1% allra fjölskyldna var að jafnaði með 1,6 milljónir í fjölskyldutekjur á mánuði 1993 (á föstu verðlagi) en hafði hækkað í 18,2 milljónir á mánuði árið 2007.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka