Leggur til hækkun hámarkslána

mbl.is

Stjórn Íbúðalánasjóðs lagði til við félagsmálaráðuneytið fyrir þremur vikum, hámarkslán til íbúðarkaupa verði hækkuð. Sjóðurinn hefur engin svör fengið við tillögum sínum en fundur er fyrirhugaður í næstu viku.

Stjórn Íbúðalánasjóðs lagði það til við félagsmálaráðuneytið að  hámarkslán til íbúðarkaupa verði hækkuð úr 20 milljónum í 30 milljónir. Var þetta hluti af tillögum sjóðsins sem miðuðu meðal annars að því að styrkja samstarf við aðrar lánastofnanir og þá sérstaklega lífeyrissjóðina.

Þrátt fyrir að þrjár vikur séu nú liðnar frá því að sjóðurinn lagði þetta til hafa engin svör borist enn frá ráðuneytinu. Fundur milli sjóðsins og ráðuneytisins er þó áætlaður í næstu viku og vonast sjóðurinn eftir svörum.

Fólkið læst inni á heimilum sínum

Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, segir að nauðsynlegt sé fyrir ráðuneytið að fallast á tillögur sjóðsins. „Í dag er fjöldi manns læstur inni í húsum sínum með óhagstæð lán. Það getur ekki losnað við eignirnar vegna lánakerfisins og ósveigjanleika fjármálastofnana. Margir vilja minnka við sig til að létta á skuldabyrðunum en það er bara ekki hægt," segir hún. Fjármálakerfið sé ósveigjanlegt og fjármálastofnanir séu oft á tíðum með harkalegar aðgerðir.

Ingibjörg segir lífeyrissjóðina vera í góðri stöðu til þess að lána fólki en sökum útlánareglna Íbúðalánasjóðs dugi það ekki til. ,,Þessi upphæð dugir eingöngu fyrir fasteignum sem kosta undir 25 milljónir. Það segir sig sjálft að fjögurra manna fjölskyldu þurfi á stærri og dýrari fasteignum að halda," segir hún. Tuttugu milljón króna hámark sé því óraunhæft.

Fyrirkomulag íbúðalána er slíkt hjá ÍLS, að lán á fyrri veðréttum dragast frá hámarkslánaupphæð svo ef einstaklingur er til dæmis kominn með 18 milljón króna lán frá lífeyrissjóði sínum lánar Íbúðalánasjóður honum ekki nema tvær.

Ingibjörg vísar á bug þeim svörum yfirvalda að hækkun lánsfjárhæðar geti valdið aukinni þenslu. ,,Fasteignamarkaðurinn er í algerri handbremsu og það losnar ekki um hann fyrr en skilvirk stefna í lánamálum verður mótuð. Hækkun hámarkslána væri liður í því."

Íbúðalánasjóður lækkaði vexti sína í dag í kjölfar útboðs á íbúðabréfum. Ingibjörg sagði, að þótt útlánsvextir Íbúðalánasjóðs hafi farið lækkandi undanfarið dugi það ekki til þótt um sé að ræða skref í rétta átt.

Farið yfir málið af yfirvegun

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, segir að fara verði yfir þetta mál af yfirvegun enda markaðurinn ákaflega viðkvæmur. „Menn fóru mjög flatt á því áður að marka lánastefnu Íbúðalánasjóðs án tillits til efnahagslegra forsendna. Við þurfum því að reikna út afleiðingar af aðgerðum eða aðgerðarleysi á þessu sviði.“

Árni Páll bendir á að erfiðlega hafi gengið að bjóða út íbúðabréf á ákveðnu tímabili í vetur og undir vor. Þó svo að betur hafi gengið í síðustu tveimur útboðum verði að stíga varlega til jarðar, og meta hvernig best er að sjá fyrir sér þróun á markaðnum. „Svo er það spurning um hvert hlutverk bankanna verður á þessum markaði. Við þurfum að ræða það við bankana einnig hvernig uppbyggingu á markaðnum verður háttað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert