Kurteis og hófstillt mótmæli

mbl.is

Dálkahöfundar og fréttaskýrendur í bresku morgunblöðunum hafa sumir hverjir tekið nokkuð annan og mildari pól í hæðina í Icesave-deilunni en starfsbræður þeirra í gær. Þannig segir dálkahöfundur Financial Times, að Íslendingar hafi fundið kurteisa og hófstillta leið til að lýsa óánægju með að þurfa að greiða háar fjárhæðir vegna hroka og græðgi annarra.

„Íbúarnir á Íslandi, einu friðsælasta landi heims, hafa með stuðningi forseta síns fundið viðeigandi kurteisa og hófsama leið til að lýsa andstöðu við að þurfa að leggja fram háar fjárhæðir til að greiða fyrir hroka og græðgi annarra. Þeir hafa rétt fyrir sér. Við ættum að hlusta á þá áður en sömu boðunum er komið á framfæri með mun ofbeldisfyllri hætti, á öðrum stað og tíma. Það er hins vegar ólíklegt að við munum gera það," segir John Kay, dálkahöfundur Financial Times.

David Prosser, dálkahöfundur The Independent, segir að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, tali oft um að stjórnmálamenn þurfi að taka erfiðar ákvarðanir. „En hann mun ekki oft hafa þurft að taka ákvarðanir á borð við þær sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur þurft að taka á undanförnum dögum," segir Prosser. 

Hann segir, að það verði að hafa samúð með Íslendingum. Sú upphæð sem Íslendingar eiga að greiða Bretum, 2,4 milljarðar punda á 15 árum, skipti litlu máli í fjárlögum Bretlands. En þetta sé 40% af vergri landsframleiðslu Íslands og samsvari 11 þúsund punda skuld á hver Breta, jafnvirði 2,2 milljóna króna.

Roger Boyes, blaðamaður The Times, sem nýlega skrifaði umdeilda bók um íslenska hrunið, segir í blaði sínu, að í augum útlendinga virðist Ísland eiga í stríði við umheiminn og þrjóskist við að þiggja aðstoð við að hreinsa til eftir fjármálahrunið.

En í raun hafi synjun Ólafs Ragnars Grímssonar sýnt fram á, að eyþjóðin eigi í innbyrðis stríði, óviss um hvar ábyrgðin á ástandinu liggur. Þessi óvissa sé að leiða til þess, að nánast sé að verða ómögulegt að stjórna þjóðinni. 

Grein Boyes í The Times

Grein Prossers í Independent

Grein Kay í Financial Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert