Gígur í sigkatlinum stækkað

Litlar breytingar hafa orðið á gosinu í dag.
Litlar breytingar hafa orðið á gosinu í dag. mbl.is/RAX

Litlar breytingar hafa orðið í dag á eldgosinu í Eyjafjallajökli. Flugvél Landhelgisgæslunnar flaug yfir gossvæðið í morgun og voru litlar hreyfingar merkjanlegar.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir gíginn í sigkatli eldfjallsins hafa stækkað og að hraun renni undir jöklinum til norðurs frá gosstöðvunum.

Gosmökkurinn nær um 5 km hæð upp úr skýjum en lágskýjað er yfir jöklinum. Magnús Tumi segir öskufall vera lítið en það heyrist dynkir í fjallinu. Hann vill ekki spá neinu um það hvenær eða hvort hraunrennslið nái undan jöklinum en það renni eftir fjallinu og bræði ísinn fyrir ofan og til hliðar.

„En ef að gosið verður langt nær rennslið ef til vill að bræða Gígjökullinn að hluta og renna niður á aurana. Við sjáum ekki alveg hvert það er komið þannig að við vitum ekki hvort eða hvenær þetta gæti gerst,“ segir Magnús Tumi.

Gosmökkurinn er ljós að mestu leyti en grá gosefni voru yfir gígnum þegar flogið var yfir hann í TF-Sif, flugvél Landhelgisgæslunnar. Sá hluti gosmakkarins sem nær meira en 4 km hæð stefnir í austur. Ekki sást til gossins í fluginu, en á ratsjá flugvélarinnar mátti sjá að gígurinn er orðinn um 200 metrar í þvermál og um 130-170 metrar á hæð. 

Engin merki eru um breytingar undir Kötlu.

Kvikustreymi hefur verið með svipuðum hætti og undanfarna sólarhringa og hraun heldur áfram að renna til norðurs í upptökum Gígjökuls. Ekki sjást merki um að gosi sé að ljúka, þó að virkni á yfirborði sé um stærðargráðu minni en þegar mest lét.

Eldgos í Eyjafjallajökli
Eldgos í Eyjafjallajökli Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert