Eiga von á sekt í Georgíu

Sendiherra Georgíu í Danmörku og á Íslandi segir að ákvörðun Útlendingastofnunar um að setja Georgíu á lista yfir örugg ríki sé enn ein vísbendingin um hversu jákvæðar aðstæður eru í landinu, pólitískur stöðugleiki og mannréttindi séu virt.

Rætt er við Gigi Gigiadze sendiherra í vefritinu Georgia Today en 19. júlí var greint frá því á vef Útlendingastofnunar að Georgía og Kosovo væru komin á lista yfir örugg ríki hjá íslenskum yfirvöldum. Rúmlega helmingur allra umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi í síðasta mánuði var frá Georgíumönnum.

Gigiadze segir í viðtalinu að þessi ákvörðun Íslands þýði að þeim Georgíumönnum sem sæki um hæli á Íslandi verði vísað úr landi og þeir beittir refsiaðgerðum í Georgíu.

Utanríkisráðuneyti Georgíu hefur gefið út að þeir Georgíumenn sem er vísað úr landi á Íslandi verði tilkynntir til annarra ríkja í Schengen-landamærasamstarfinu. Það þýðir að fólk megi búast við að þurfa að greiða sekt og eins fái fólk ekki heimild til þess að koma til ríkja innan Schengen í fimm ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert