Samið um allt nema laun

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fjórtán aðildarfélög Bandalags háskólamanna, BHM og Samtaka atvinnulífsins, SA, undirrituðu í dag ótímabundinn kjarasamning sín á milli. Samningurinn byggir á fyrri kjarasamningi þessara aðila, frá árinu 2011, en er sérstakur að því leytinu til að ekki er þar samið um laun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá BHM. Fram kemur að launakjör séu ákvörðuð í ráðningarsamningi milli vinnuveitandi og viðkomandi háskólamanns. Starfsmaður geti árlega óskað eftir launaviðtali við sinn yfirmann en sérsetakur „skýringarrammi“ var settur í samninginn um þessi viðtöl.

Á meðal þess sem nýi kjarasamningurinn felur í sér er að staðfest hefur verið að vinnuveitandi skuli greiða aukið framlag í lífeyrissjóði (það er nú 10% en verður 11,5% næsta sumar) og að vinnuveitanda er skylt að greiða framlag í Starfsmenntunarsjóð BHM. Þá eru í samninginn heimildarákvæði um að valkvætt sé að vinnuveitendur greiði í Vísindasjóð viðkomandi stéttarfélags og í Starfsþróunarsetur háskólamanna.

Í samningnum er að finna nýtt ákvæði um staðgengla, um uppsagnarfrest á reynslutíma, breytingar á vaktavinnukafla, veikindakafla og fræðslumálum, svo eitthvað sé nefnt. „Þá var lögð áhersla á mikilvægi þess að vinnuveitandi og starfsmaður geri með sér skriflegan ráðningarsamning í upphafi ráðningar.“

Aðildarfélögin fjórtán eru: Dýralæknafélag Íslands, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag lífeindafræðinga, Félag sjúkraþjálfara, Félagsráðgjafafélag Íslands, Fræðagarður, Iðjuþjálfafélag Íslands, Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Ljósmæðrafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga og Þroskaþjálfafélag Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert