Of lítið tekið mið af börnum við lagasetningu

Talsmennirnir stilla sér upp eftir undirritun yfirlýsingarinnar.
Talsmennirnir stilla sér upp eftir undirritun yfirlýsingarinnar. mbl.is/​Hari

Of lítið hefur verið tekið mið af börnum við lagasetningu á þingi þrátt fyrir flest málefni varði börn með einum eða öðrum hætti. Það er þó að breytast til betri vegar. Þetta segir Þóra Jónsdóttir, lögfræðingur og verkefnastjóri hjá Barnaheillum.

Í dag undirrituðu þingmenn úr öllum flokkum yfirlýsingu þess efnis að þeir skuldbindi sig til að hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í störfum sínum í þinginu og leitist við að tileinka sér barnvæn sjónarmið. Með því að undirrita yfirlýsinguna gerast þeir talsmenn barna á Alþingi.

„Þetta er fyrst og fremst samvinna um að auka umræðu um börn á þingi. Þingmenn eru að taka þetta af fúsum og frjálsum vilja á eigin forsendum en eru ekki skipaðir til verksins. Þetta eru þingmenn sem hafa sérstakan áhuga eða vilja gefa kost á sér í það. Um er að ræða þverpólitískt verkefni,“ segir Þóra en verkefnið er samvinnuverkefni Barnaheilla, UNICEF, umboðsmanns barna og þingmanna.

Þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum gerðust í dag talsmenn barna á …
Þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum gerðust í dag talsmenn barna á þingi. mbl.is/Hari

„Við höfum Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu okkar starfi og við erum fyrst og fremst að hvetja þingmenn til að kynna sér vel réttindi barna og að koma þeim á framfæri í gegnum vinnu sína á þingi,“ bætir hún við.

Til að undirbúa sig fyrir hlutverkið sóttu þingmenn námskeið þar sem fulltrúar ungmennaráða Barnaheilla og UNICEF auk ráðgjafahóps umboðsmanns barna kynntu þeim ákvæði Barnasáttmálans og hvernig hann nýtist við ákvarðanatöku og stefnumótun.

„Við viljum að öll mál séu metin með það að leiðarljósi hvað börnum sé fyrir bestu og það sé mælt hverju sinni hvaða áhrif ákvarðanir komi til með að hafa á hópinn börn. Það má eiginlega segja að öll málefni, eða mjög mörg allavega, varði börn með einum eða öðrum hætti. Við viljum líka vekja athygli á rétti barna til þátttöku í mótun samfélagsins. Við hvetjum þingmenn því líka til þess að eiga samtal og samráð við börn.“

Þóra segir mikilvægt að haldið sé til haga upplýsingum um stöðu barna á Íslandi og þess gætt að börnum sé ekki mismunað. „Þá þarf að vekja sérstaka athygli á málefnum eins og fátækt, brottfalli og fleira. Það eru stór mál sem eru undir hverju sinni, en það þarf alltaf að hugsa heildrænt að stöðu barna og það er eitthvað sem við erum að  hvetja þingmenn til að gera.“

Þóra segir ræðum sem innihalda orðin börn eða barn hafa …
Þóra segir ræðum sem innihalda orðin börn eða barn hafa fjölgað á þingi. mbl.is/Hari

Fjögur áru eru síðan farið var að skipa talsmenn barna á þingi, en það var fyrst gert árið 2014. Þóra segir verkefnið hafa haft jákvæð áhrif og að talsmennirnir hafi sinnt sínum skyldum vel.

„Það hafa komið fram málefni sem hafa sprottið sérstaklega upp úr þessu verkefni, vegna tilstilli talsmannanna. Meðal annars hefur verið komið á árlegum fræðsludegi um Barnasáttmálann. Þá er verið að kalla eftir skýrslu um innleiðingu á Barnasáttámálanum á Íslandi sem hefði líklega ekki gerst nema vegna meðvitundar og virkni talsmanna á þingi.“

Þóra segir ræðum einnig hafa fjölgað á þingi sem innihalda orðin börn eða barn og að samtöl við félagasamtök sem láta sig börn varða séu opin og virk. „Við finnum greinilegan áhuga á að tengja betur þing og félagasamtök sem vinna að málefnum barna. Við sem stöndum að verkefninu erum alveg viss um það að þetta hefur haft í för með sér aukna umræðu, meiri meðvitund og opnara samtal um áhrif ákvarðana á börn í samfélaginu. Þrátt fyrir að margt sé að og að margt eigi enn eftir að laga þá er þingið að minnsta kosti orðið meðvitaðra.“

Þingmenn undirbjuggu sig meðal annars með því að sækja námskeið …
Þingmenn undirbjuggu sig meðal annars með því að sækja námskeið ungmennaráða Barnaheilla og UNICEF. mbl.is/​Hari

Hver flokkur tilnefnir einn aðalmann og einn varamann. Eftirtaldir þingmenn eru talsmenn barna á yfirstandandi þingi:

Flokkur fólksins

Aðalmaður: Inga Sæland

Varamaður: Guðmundur Ingi Kristinsson

Framsóknarflokkur

Aðalmaður: Líneik Anna Sævarsdóttir

Varamaður: Willum Þór Þórsson

Miðflokkur

Aðalmaður: Gunnar Bragi Sveinsson

Varamaður: Anna Kolbrún Árnadóttir

Píratar

Aðalmaður: Jón Þór Ólafsson

Varamaður: Björn Leví Gunnarsson

Samfylking

Aðalmaður: Oddný G. Harðardóttir

Varamaður: Ágúst Ólafur Ágústsson

Sjálfstæðisflokkur

Aðalmaður: Bryndís Haraldsdóttir

Varamaður: 

Viðreisn

Aðalmaður: Þorsteinn Víglundsson

Varamaður: Hanna Katrín Friðriksson

Vinstri Græn

Aðalmaður: Andrés Ingi Jónsson 

Varamaður: Steinunn Þóra Árnadóttir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka