Allt að 57% verðmunur á páskaeggjum

Páskarnir nálgast.
Páskarnir nálgast. mbl.is/Eggert

Mikill verðmunur var á páskaeggjum og páskamat þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í matvöruverslunum hinn 20. mars. Ódýrustu páskaeggin var langoftast að finna í Bónus eða í 28 tilfellum af 32 á meðan Hagkaup var oftast með dýrustu páskaeggin eða í 19 af 32 tilfellum.

Lítill verðmunur er í flestum tilfellum á verði páskaeggja milli Krónunnar og Bónuss, en í 25 tilfellum af 32 munaði einungis einni krónu á verð milli þessara verslana, að því er segir í tilkynningu frá ASÍ.

Þegar litið er til matvöru sem gjarnan er á borðum landsmanna á páskum þá reyndist mikill verðmunur vera á kjöti milli verslana en allt að 127% munur var á frosnum kjúklingabringum, 84% á frosnu lambalæri og 52% fersku lambafille að sögn ASÍ. Mikill verðmunur var einnig á ýmsum öðrum vörum í könnuninni eins og ís, grænmeti, brauði og drykkjarvörum.

Oft einnar krónu verðmunur á páskaeggjum milli Bónus og Krónunnar
Mesti verðmunurinn var á páskaeggjum frá Freyju en allt að 57% verðmunur eða 1.240 kr. munur reyndist á Freyju ríseggi með saltkaramellubragði nr. 9, Freyju ríseggi nr. 9, Freyju draumaeggi nr. 9 og Freyju draumaeggi með lakkrís nr. 9. Í öllum þessum tilfellum voru páskaeggin ódýrust í Bónus á 2.129 kr. en dýrust í Hagkaup á 3.399 kr.

Ódýrustu páskaeggin var oftast að finna í Bónus eða í 28 tilfellum af 32 á meðan Hagkaup var með dýrustu páskaeggin í 19 tilfellum. Í 25 tilfellum af 32 munaði einungis einni krónu á verði eggjanna í Bónus og Krónunni.

Verðmerkingum var talsvert ábótavant í Hagkaup en í 8 tilfellum voru páskaegg þar óverðmerkt. Ekkert af þeim páskaeggjum sem verðlagseftirlitið kannaði verð á var fáanlegt í verslun Víðis í Skeifunni og í Costco, að því er ASÍ segir.

Allt að 127% verðmunur á kjöti
Mikill verðmunur var á kjöti í könnuninni en 127 % munur var á frosnum kjúklingabringum, lægsta verðið mátti finna í Hagkaupum, 1.189 kr. kg en það hæsta í Víði, 2.698 kr./kg. Þá var mikill verðmunur á fersku lambafille eða allt að 52%. kg. Þrjár verslanir voru með sama og lægsta verðið á lambafille, 4.998 kr. kg. en það voru verslanirnar Kjörbúðin, Nettó og Bónus en hæsta verðið mátti finna í Víði, 6.850 kr./kg. Töluverður verðmunur var einnig á frosnu lambalæri eða allt að 84% sem gera 751 kr., lægst var verðið í Víði, 898 kr./kg en hæst í Hagkaup 1.649 kr./kg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert