Sigurður Gísli: Allir geta grætt á náttúruvernd

Sigurður Gísli Pálmason, stofnandi Hrífandi, og Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur og …
Sigurður Gísli Pálmason, stofnandi Hrífandi, og Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur og ráðstefnustjóri Verndarsvæði og þróun byggðar.

„Við Íslendingar erum enn fastir í þeim hugmyndum að ekki sé hægt að vernda svæði öðruvísi en að þar megi þá ekkert gera nema að anda,“ segir Sigurður Gísli Pálmason, stofnandi og formaður samtakanna Hrífandi sem standa fyrir ráðstefnu um verndarsvæði og þróun byggðar á morgun, föstudag. Hann bendir á að til séu fjölmargar leiðir til friðunar og verndunar og að viðfang ráðstefnunnar sé að koma á framfæri dæmisögum frá stöðum þar sem slíkt hefur tekist vel til.   

„Atvinnuuppbygging, byggðaþróun og verndun geta farið vel saman og við Íslendingar erum í þeirri einstöku stöðu að allir myndu græða á slíkri samþættingu. Það er hægt að vernda og skapa þannig störf og tekjur, bæði á tilteknum svæðum sem og á landsvísu.“

Dæmisögur úr ýmsum áttum

  Á ráðstefnunni, sem fram fer í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, munu erlendir fyrirlestarar m.a. segja reynslusögur af verkefnum í þessum anda.  Elliott Lorimer mun flytja erindi um uppbyggingu verndarsvæðis í norð-vesturhluta Englands þar sem ferðamennska og önnur atvinnuuppbygging hefur blómstrað síðustu ár. Það svæði,Bowland-skógur, nýtur sérstakrar verndar vegna stórkostlegrar náttúrufegurðar.

Í nágrenni Bowlands-skógs, sem er verndarsvæði á Englandi, er byggð, …
Í nágrenni Bowlands-skógs, sem er verndarsvæði á Englandi, er byggð, aðallega í útjaðri. Landslagið innan svæðisins er fjölbreytt og skiptast á gróðurlitlar heiðar og skógi vaxnar hlíðar. Af Wikipedia

  Rita Johansen mun fjalla um verndun Vega-eyjaklasans í Noregi  sem heimamenn áttu frumkvæði að að koma á heimsminjaskrá UNESCO í þeirri viðleitni að sporna gegn viðvarandi fólksfækkun og til að auðga atvinnulífið.

Jukka Siltanen segir frá meistararitgerð sinni frá HÍ en hann rannsakaði efnahagsleg áhrif þjóðgarða á Íslandi.  Niðurstöður hans benda til að náttúruvernd og náttúrumiðuð ferðaþjónusta séu efnahagslega sterkir valkostir við nýtingu náttúruauðlinda.

Þá mun Miguel Clüsener-Godt, deildarstjóri verndarverkefnsins Man and the Biosphere hjá UNESCO (Maður í lífheimi), segja frá útfærslu slíkra verndarsvæða sem eru um 700 talsins í dag. Verkefnið miðar að því að bæta samband manns og umhverfis.

Sigurður Gísli hefur lagt til að kannaðir verði kostir þess að vernda með þessum hætti Árneshrepp á Ströndum.

Heimamenn á Vega-eyjum í Noregi sóttust eftir að fá þær …
Heimamenn á Vega-eyjum í Noregi sóttust eftir að fá þær skráðar á heimsminjaskrá UNESCO. Tilgangurinn var að sporna við fólksflótta og auka atvinnutækifæri. Af Wikipedia

„Þannig að á ráðstefnunni munu gestir kynnast hluta af þeirri miklu fjölbreytni sem er í verndarmálum og þeim aðferðum sem verið er að beita til umhverfisverndar en jafnframt atvinnuuppbyggingar.“

Hugarfarsbreyting að eiga sér stað

Sigurður Gísli segir að undanfarið hafi sífellt fleiri hér á landi verið að átta sig á því að ekki þurfi að eyðileggja náttúruna til að hafa af henni tekjur. „Hinn óvænti bandamaður, ferðamaðurinn, hefur haft sitt að segja í þessari hugarfarsbreytingu. En jafnvel í ferðamennskunni þurfum við að kunna okkur hóf og gæta að náttúrunni.“

Ferðaþjónustan er orðin stærsta atvinnugreinin  á Íslandi og benti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á það í viðtali á Bylgjunni í vikunni að hún væri orðin stærri en sjávarútvegurinn og álframleiðslan samanlagt.

Man and biosphere eða Maður og lífheimur er verndarverkefni innan …
Man and biosphere eða Maður og lífheimur er verndarverkefni innan UNESCO. Tæplega 700 svæði í heiminum njóta nú slíkrar verndar.

Hrífandi er félag um það sem Sigurður kallar náttúrumenningu. „Það er mín skoðun að við séum á villigötum þegar við erum sífellt að reyna að aðgreina manneskjuna frá náttúrunni. Það verður til þess að við teljum okkur alltaf yfir náttúruna hafin og að það gefi okkur leyfi til að útrýma tegundum og þar fram eftir götunum. Þessi aðgreining hefur orðið til þess að við lítum á okkur sem einhverja ofurveru sem megi allt og geti allt. Það er hættulegt.“

Sigurður segir þessa ákveðnu hugmyndafræði eiga rætur að rekja til heimspekingsins Timothy Morton sem náð hefur eyrum sífellt fleiri á síðustu misserum.

Sveitin kveikti áhugann

En hvar og hvenær fæddist áhugi Sigurðar Gísla, sem er m.a. aðaleigandi IKEA á Íslandi, á verndun náttúrunnar?

Frá hálendi Íslands. Til eru margvíslegar leiðir til náttúru- og …
Frá hálendi Íslands. Til eru margvíslegar leiðir til náttúru- og menningarminjaverndar og verður sagt frá nokkrum þeirra á ráðstefnunni Verndarsvæði og þróun byggðar á föstudag. mbl.is/RAX

„Eiginlega hefur þetta fylgt mér alla tíð. Ég er að miklu leyti alinn upp í sveit og það er væntanlega kveikjan. Mér hefur runnið það til rifja þegar ég hef séð eyðileggingu á náttúrunni fyrir óljósan ávinning. Ég er nógu gamall til að muna eftir því þegar stíflað var í Fljótunum og dalverpi sökkt til að rafvæða Skagafjörð. Það var fullkomlega eðlilegt framfaramál. Með svipuðum rökum má segja að Búrfellsvirkjun og álverið í Straumsvík hafi verið skiljanlegar framkvæmdir. En síðan rann á okkur eitthvert æði. Náttúran getur verið harkaleg og óvægin en hún er líka blíð og viðkvæm. Hún þarf á varðmönnum að halda.“

 Ráðstefnan Verndarsvæði og þróun byggðar hefst klukkan 10 á morgun, föstudag. Hér er hægt að skoða dagskrána. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert