Óvenjugóð kjörsókn í Árneshreppi

Kjörfundur hófst klukkan 9.30 í félagsheimilinu Árnesi í morgun. Hann …
Kjörfundur hófst klukkan 9.30 í félagsheimilinu Árnesi í morgun. Hann stóð til 17.30. mbl.is/Sunna

Kjörfundi er lokið í Árneshreppi á Ströndum. Kosningaþátttaka var með besta móti eða 93,48% að því er formaður kjörstjórnar greindi blaðamanni mbl.is frá á kjörstaðnum í félagsheimilinu í Trékyllisvík.

Í Árneshreppi eru óbundnar kosningar sem þýðir að allir kjósendur í sveitarfélaginu eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því. Tveir núverandi hreppsnefndarmenn, Hrefna Þorvaldsdóttir og Ingólfur Benediktsson, báðust undan kjöri fyrir kosningarnar nú.

Á kjörseðlinum eru því engir listabókstafir. Hann er tvískiptur og skrifa kjósendur á efri hluta hans nöfn og heimilisföng þeirra sem þeir kjósa sem aðalmenn og á neðri hlutann rita þeir nöfn og heimilisföng varamanna. Fimm aðalmenn eru í hreppsnefnd Árneshrepps og jafnmargir varamenn.

Atkvæði verða talin í félagsheimilinu Árnesi. Hefst talning um klukkan 18.30 og verða úrslit tilkynnt í Árnesi að talningu lokinni.

Á kjörskrá eru 46; 24 konur og 22 karlar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert