Bubbi ætlar ekki að áfrýja

Bubbi Morthens ætlar ekki að áfrýja meiðyrðadómi í máli Steinars …
Bubbi Morthens ætlar ekki að áfrýja meiðyrðadómi í máli Steinars Bergs gegn sér. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens ætlar ekki að áfrýja meiðyrðadómi í máli Steinars Bergs gegn sér. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Steinar sendi frá sér nú í hádeginu.

Þar segir Steinar að Bubbi hafi tilkynnt sér að hann muni ekki áfrýja „og því eru ummæli hans, sem tiltekin eru í dómnum, dæmd dauð og ómerk.“

Kveðst Steinar hafa fallist á að taka við greiðslu frá Bubba fyrir helmingi þeirrar upphæðar sem Bubba og RÚV var gert að greiða honum og málinu sé þar með lokið af hans hálfu gagnvart Bubba Morthens.

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur dæmdi í síðasta mánuði Bubba og Rík­is­út­varpið ohf. til greiðslu miska­bóta fyr­ir meiðyrði Bubba gegn Stein­ari. Varðar málið um­mæli sem Bubbi lét falla í sjón­varsþætt­in­um Popp- og rokk­saga Íslands á RÚV í mars árið 2016 og um­mæli sem hann lét falla á Face­book og í fjöl­miðlum í kjöl­farið. Var Bubba og Rík­is­út­varp­inu gert að greiða Stein­ari Berg sam­tals 500 þúsund krón­ur í miska­bæt­ur auk drátt­ar­vaxta. 

Gert að birta dómsorðið innan tveggja vikna

Auk miskabótanna var RÚV dæmt óheimilt að birta þættina með ummælunum sem dæmd voru dauð og ómerk. Þá var RÚV einnig gert að birta dómsorð innan tveggja vikna frá uppkvaðningu dómsins í dagskrá sjónvarps og einnig, ásamt forsendum, á vefsíðu sinni. 

Í frétt á vef RÚV segir að RÚV hafi ekki tekið ákvörðun um það hvort dóminum verði áfrýjað, en Steinar bendir á í yfirlýsingu sinni að sá tími sem RÚV hafði til birtingar dómsorðs og forsendna, sé nú liðinn, án þess að farið hafi verið að niðurstöðu dómsins. „Fyrir liggur að RÚV ætlar að áfrýja dómnum. Þar með virðist RÚV vera að sækjast eftir rétti til þess að dreifa ærumeiðandi ummælum, jafnvel eftir að dómur liggur fyrir og þrátt fyrir að um RÚV gilda lög og siðareglur sem kveða á um hlutleysi og vönduð vinnubrögð.“

Segir Steinar dóm héraðsdóms gagnvart RÚV snúast um gáleysisleg vinnubrögð, af því að RÚV hafi endursýnt þáttinn og gefið hann út á DVD eftir að hann hafði bent RÚV á að þátturinn innihéldi ærumeiðandi ummæli.

„Ætla mætti að ríkisstofnun sem ætlað er að vinna að almannaheill mæti hlutverk sitt og fjárhag öðruvísi. Sú er ekki raunin og því hlýtur afstaða RÚV að vekja upp spurningar um hlutverk stofnunarinnar í nútíma samfélagi,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert