Ummæli Bubba dæmd dauð og ómerk

Bubbi Morthens tónlistarmaður.
Bubbi Morthens tónlistarmaður. mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Bubba Morthens, tónlistarmann, og Ríkisútvarpið ohf. til greiðslu miskabóta fyrir meiðyrði Bubba gegn Steinari Berg Ísleifssyni. Varðar málið ummæli sem Bubbi lét falla í sjónvarsþættinum Popp- og rokksaga Íslands á RÚV í mars árið 2016 og ummæli sem hann lét falla á Facebook og í fjölmiðlum í kjölfarið. Var Bubba og Ríkisútvarpinu gert að greiða Steinari Berg samtals 500 þúsund krónur í miskabætur auk dráttarvaxta. Mbl.is hefur dóminn undir höndum.

Steinar Berg höfðaði mál á hendur Bubba og RÚV árið 2016 fyrir ummæli sem Bubbi hafði látið falla í fyrrgreindum sjónvarpsþætti, á Facebook og í samtölum við fjölmiðlana Vísi og mbl.is. Þar sakaði hann Steinar Berg um að hafa sem út­gef­andi hans brotið á sér er hann starfaði í hljóm­sveit­un­um Utang­arðsmönn­um og Egó á ní­unda ára­tugn­um. 

Eftirfarandi ummæli Bubba féllst dómurinn á að væru ærumeiðandi í garð Steinars Berg og dæmdi þau dauð og ómerk.

Ummæli í þættinum Popp-og rokksaga Íslands: 

Útgefandinn hann mokgræddi á okkur, það er bara þannig.“ 

Eftirfarandi ummæli sem Bubbi lét falla á Facebook 14. mars 2016:

„Fyrirtækið nýtti sér reynsluleysi mitt okkar og yfirburðastöðu sína þannig var það.“

Ummæli á Facebook 15. mars 2016

Niðurstaðan er og verður sú að samningar þínir við Ego og Utangarðsmenn voru gerðir af fyrirtæki með yfirburðaþekkingu á öllum hlutum á meðan við vorum með því miður enga yfirsýn yfir neitt og algerlega blautir á bakvið eyrun. Þú nýttir þér það.

Ummæli af mbl.is 17. ágúst 2016:

„Hann nýtti sér bágt ástand mitt.“

Ummæli af vísi.is 17. ágúst 2016:

„Eitt er alveg á hreinu, Steinar berg græddi á mér og græddi vel á mér. [...] Hann nýtti sér bágt ástand mitt. [...] og hann bara nýtti sér það [...] en hann nýtti sér þetta allt.“ 

Taldi dómurinn ummælin fela í sér ærumeiðandi aðdróttanir. Þá taldi dómurinn einnig að RÚV hafi af stórfelldu gáleysi endursýnt umræddan þátt þrátt fyrir yfirlýsingu Steinars um málshöfðun. Hafi það stuðlað að víðtækri dreifingu meiðyrðanna með því að gefa þættina út á DVD diskum. 

Bubba og RÚV var hvoru um sig gert að greiða Steinari 250 þúsund krónur í miskabætur vegna ummælanna auk tveggja milljóna króna óskipt í málskostnað. 

Steinar Berg Ísleifsson, fyrrverandi hljómplötuútgefandi.
Steinar Berg Ísleifsson, fyrrverandi hljómplötuútgefandi. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert