Ekkert fékkst upp í kröfur vegna Dalsmynnis

Skiptum er lokið á þrotabúi hundaræktarinnar Dalsmynnis og fundust engar …
Skiptum er lokið á þrotabúi hundaræktarinnar Dalsmynnis og fundust engar eignir í búinu. mbl.is/Árni Sæberg

Skiptum er lokið á þrotabúi hundaræktarinnar Dalsmynnis og fundust engar eignir í búinu að því er greint er frá í Lögbirtingarblaðinu í morgun. Var kröfum upp á rúmar 2,3 milljónir kr. lýst í búið og fékkst ekkert upp í þær.

Dalsmynni var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun maí á þessu ári, en um hálfum mánuði áður hafði Matvælastofnun tilkynnt að ákvörðun hefði verið tekið um stöðvun starfsemi hundaræktarinnar í Dalsmynni á grundvelli laga um velferð dýra. Fékk Dalsmynni þá mánaðarfrest til að ráðstafa þeim hundum sem þar voru til að komast hjá vörslusviptingu.

Skömmu síðar greindi Ásta Sigurðardóttir, eigandi Dalsmynnis, frá því að hún væri búinleggja fyrirtækið niður eftir 26 ára starf og ætlaði framvegis að vera með hunda hjá sér sem gæludýr.

Um 18 hundar voru í Dalsmynni er þetta var að því er Kon­ráð Kon­ráðsson, héraðsdýra­lækn­ir suðvest­urum­dæm­is, sagði í samtali við mbl.is og kvað hann hafa verulega dregið úr starfsemi fyrirtækisins. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Matvælastofnun hafði afskipti af fyrirtækinu en dreifingarbanni var aflétt árið 2014 eftir að fyrirtækið hafði gripið til aðgerða til að halda niðri smiti af völdum þráðorma og annarra iðrasýkinga sem höfðu greinst þar.

Greint var svo frá því í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku að MAST hefði fengið ábendingar um að ræktun og sala væri enn í gangi á heimili fyrrverandi rekstraraðila Dalsmynnis og verið væri að skoða hvort það bryti gegn ákvörðun MAST. Var haft eftir Ástu við það tækifæri að hún væri orðin langþreytt á orðrómi um fyrirtækið og engin starfsemi væri þar í gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert