Hætt með hundarækt í Dalsmynni

Með ákvörðun Matvælastofnunar er starfsemin í hundahúsum að Dalsmynni bönnuð.
Með ákvörðun Matvælastofnunar er starfsemin í hundahúsum að Dalsmynni bönnuð. mbl.is/Árni Sæberg

Ásta Sigurðardóttir, eigandi Hundaræktarinnar í Dalsmynni, er búin að leggja fyrirtækið niður eftir 26 ára starf og ætlar framvegis að vera með hunda hjá sér sem gæludýr.

Hundahúsin verða innréttuð sem íbúðir.

Hún segist hafa beðið lögfræðing sinn um að senda Matvælastofnun bréf í janúar eða febrúar um að þau séu hætt með fyrirtækið Hundaræktin ehf., áður en stofnunin sendi frá sér tilkynningu um að stöðva skuli starfsemi Dalsmynnis. 

„Svo slá þeir þessu upp sem hasarfrétt að þeir hefðu lokað. Ég er komin á áttræðisaldur og við ætlum bara að vera með örfáa hunda hérna hjá okkur,“ segir Ásta, sem var undrandi á tilkynningu Matvælastofnunar.

Hún vísar gagnrýni Matvælastofnunar á bug og segir Hundaræktina hafa gert allt sem stofnunin hafi beðið þau um í gegnum árin, meðal annars stækkað útigerðin fyrir hundana.

Ormur greindist í hundum frá Dalsmynni árið 2012. Ásta segir að ormurinn hafi borist úr einangrunarstöð og vísar því á bug að Hundaræktin hafi ekki látið ormhreinsa og nefnir að það standi svart á hvítu í sprautubókum. Eftir að ormurinn kom upp segist Ásta alltaf hafa farið með saursýni á Keldur.

Spurð út í tilkynningu Matvælastofnunar segir Ásta að hún skipti hana engu máli. „Það er alltaf verið að skíta mig út frá því ég byrjaði í hundunum. Ég er bara hissa hvað aðrar konur sleppa. Það er bara af því að við erum áberandi.“

Hún bætir við: „Það eru kannski sýndir 800 hundar í hundaræktunarfélaginu og 200 hvolpar og enginn er að rækta. Hvaðan koma þessir hvolpar sem er verið að sýna, detta þeir niður úr skýjunum? Það er bara ekki sama í hvaða félagi maður er.“

Ásta nefnir að Hundaræktunin hafi ekki verið með got síðan fyrir jól en heimasíða þeirra hafi verið starfrækt og fólk hafi ræktað undan hundunum þeirra. „Það vita allir af mér. Fólk er fljótt að selja þegar það kemur til okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert