Hefja athugun á Tekjur.is

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Persónuvernd hefur hafið athugun á birtingu Viskubrunns ehf. á skattskrárupplýsingum fyrir árið 2016 á vefsíðunni Tekjur.is, en stofnunni hefur borist fjöldi erinda frá einstaklingum sem telja brotið gegn persónuverndarlöggjöf með birtingunni. Þetta kemur fram á heimasíðu Persónuverndar. Bréf um athugunina hefur verið sent lögmanni Viskubrunns.

Þar kemur fram að stofnunin hafi ákveðið að hefja athugun á því hvort vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við síðuna samrýmist lögum um persónuvernd. Vakin er athygli á því að í tengslum við athugunina geti komið til beitingar valdheimilda stofnunarinnar, til að mynda takmörkunar eða banns við vinnslu tímabundið eða til frambúðar.

Í bréfinu er meðal annars spurt hvaðan umræddar upplýsingar séu fengnar og hvernig þær hafi verið unnar úr upprunalegum gögnum, eftir atvikum með yfirfærslu þeirra af pappír á rafrænt form. Einnig hvort afhending gagnanna til Viskubrunns hafi verið bundin einhverjum skilyrðum á grundvelli laga um endurnot upplýsinga.

Þá er spurt hvort hvaða viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja og sýna fram á að vinnsla persónuupplýsinga uppfylli kröfur laga.

Fyrr í vikunni lagði Ingvar Smári Birgisson, lögfræðingur og formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, fram kröfu um lögbann á síðuna hjá sýslumanninum í Reykjavík. Taldi hann það skýrt að vegið væri ómaklega að friðhelgi einkalífs fólk með birtingu upplýsinganna. Beiðninni var hins vegar hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert