Mikið vatnsveður á höfuðborgarsvæðinu

Svona verður staðan klukkan 18:00.
Svona verður staðan klukkan 18:00. Kort/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði. Búast má við hvössum vindi og snörpum vindkviðum við fjöllum og færð er varasöm fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólk er beðið um að kanna hvort niðurföll séu í lagi.

Viðvörunin er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Faxaflóa fram á kvöld en fram á laugardagsmorgun á Breiðafirði. Spár gera ráð fyrir austan og suðaustan 15-23 m/s og víða verður talsvert vatnsveður sunnan- og vestanlands en hægari og úrkomulítið á Norðurlandi.

Hiti verður á bilinu 5 til 10 stig í kvöld.

Veðurvefur mbl.is

Það mun rigna mikið sunnanlands næstu tvo sólarhringa og hið sama á við um Vesturland, þó úrkoman þar verði án efa meira staðbundin. Því er um að gera að tryggja að niðurföll og þakrennur séu ekki tepptar svo regnvatnið fái eðlilegan farveg til sjávar,“ segir í athugasemd veðurfræðings. 

„Regnið getur einnig valdið leiðinlegum akstursskilyrðum ef vatn safnast fyrir á vegum, akið því varlega,“ kemur enn fremur fram á vefsíðu Veðurstofunnar.

Á vefsíðu Vegagerðarinnar er varað við því að hviður geti farið upp í 35 m/s á utanverðu Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli, við Seljalandsfoss og undir V-Eyjafjöllum. Einnig geti verið varasamt á Reykjanesbraut nú síðdegis þegar saman fer mikið vatnsveður og sterkur hliðarvindur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert