Styttist í aðkomu fjárfesta að flugfélaginu

Hreiðar Her­manns­son, hót­el­stjóri Stracta Hotels.
Hreiðar Her­manns­son, hót­el­stjóri Stracta Hotels. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hjólin eru farin að snúast enn frekar hjá Hreiðari Hermannssyni, hótelstjóra Stracta Hotels, sem vinnur að því hörðum höndum að stofna nýtt lággjaldaflugfélag.

Eftir að mbl.is greindi fyrst frá því á þriðjudag að Hreiðar væri búinn að útbúa leiðaráætlun fyrir flugfélagið hefur síminn varla stoppað hjá honum þar sem fjölmargir hafa haft samband.

„Það hafa gefið sig fram flugfélög og flugvélaverkstæði, þá er búið að bjóða að taka hlutabréf upp í vinnu. Það virðist vera mikill áhugi fyrir málinu. Ég er ekki að blaðra neina vitleysu, stend algjörlega einn að þessu og ber alla ábyrgð. Af öllum þeim tölvupóstum og símtölum sem ég hef fengið þá er ekki ein neikvæð rödd. Þá er maður kátur,“ segir Hreiðar við mbl.is í dag.

Hann stendur sem fyrr segir einn að verkefninu á þessu stigi, en að undirbúningsvinnunni með honum kemur fólk sem starfaði hjá WOW air. Nú þegar leiðarkerfið er klárt er stefnt að því að sannreyna viðskiptaáætlanir um helgina og bjóða í kjölfarið fjárfestum að borðinu.

„Um helgina er stefnt að því að rýna betur í þær viðskiptaáætlanir sem gerðar hafa verið og hvort þær standist gagnrýni. Ef það lítur út fyrir að vera raunveruleikinn þá er stefnt að því að fara að tala við fagfjárfesta um málið í næstu viku,“ segir Hreiðar.

Ekki sannreynt að rekstur gangi frá Íslandi

Hreiðar segir að allar þær áætlanir sem hafi verið gerðar komi vel út. Í umfjöllun mbl.is um málið á þriðjudag kom fram að stefnt sé að eins einfaldri uppbyggingu og hægt væri. Sæti yrðu seld á því verði sem skili ásætt­an­leg­um rekstr­araf­gangi og lít­il breidd í auka­hlut­um sem hægt yrði að kaupa.

„Það er búið að reikna allt í þaula og allt lítur ágætlega út. En það á enn eftir að koma í ljós hvort það sé hægt að reka lággjaldaflugfélag sem er skráð á Íslandi, vegna vaxta og launa,“ segir Hreiðar.

Kemur þá til greina að félagið verði ekki starfrækt frá Íslandi?

„Ef hægt er að reka það héðan þá vil ég það, en ef það reynist vera hæpið hvort félagið geti haldið velli eða ekki þá þarf að skoða málin ef á að gera þetta til framtíðar,“ segir Hreiðar, og reiknar með að uppfylla öll skilyrði um flugrekstrarleyfi.

 „Mér skilst að það muni ganga hratt og örugglega eftir að fá flugrekstrarleyfi, svo ef frekari peningar verði komnir í spilið má reikna með að hlutirnir gangi fljótt fyrir sig. Ég reikna með að þegar líður á næstu viku þá verði farið að hefja viðræður [við fjárfesta]. Ég vona því að það verði áfram hægt að segja góðar fréttir svo hægt verði að fara að dagsetja hlutina,“ segir Hreiðar Hermannsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert