„Þetta er ekki einhver prinsippafstaða“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst þetta einfaldlega vera val hverju sinni. Ef við viljum alltaf hafa auglýsingu þá ættum við auðvitað ekki að vera með slíka heimild.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is vegna skipunar Bryndísar Hlöðversdóttur í embætti ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins. Bryndís tekur við embættinu 1. janúar en hún gegnir nú embætti ríkissáttasemjara. Embætti ráðuneytisstjóra var ekki auglýst heldur var heimild nýtt í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um flutning á milli embætta.

Hreyfanleiki stjórnsýslunnar mætti vera meiri

„Ástæða þess að ég tók ákvörðun um það að þessu sinni að auglýsa ekki heldur flytja er að ég tel að það ákvæði sé vannýtt í lögum um réttindi og skyldur embættismanna. Persónulega tel ég að hreyfanleiki innan stjórnsýslunnar mætti vera mun meiri en hann er almennt og ég hef auðvitað auglýst ýmis embætti áður þannig að þetta er ekki einhver prinsippafstaða sem gildir um allt,“ segir Katrín.

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. mbl.is/Árni Sæberg

Hins vegar segist forsætisráðherra telja að það geti verið mjög jákvætt að nýta betur heimildina til þess að flytja embættismenn á milli embætta innan stjórnkerfisins þannig að þekking þeirra skili sér áfram innan þess og að fólk sé ekki of lengi á sama stað. Spurð hvort það sé ekki svo að hver sem er geti sótt um embætti sem eru auglýst, líka embættismenn, segir Katrín svo vissulega vera.

Báðar möguleikarnir heimilir samkvæmt lögum

„Það var hins vegar yfirlýst markmið þegar lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru sett að æskilegt væri að auka tilfærslur á fólki í störfum innbyrðis í stjórnkerfinu. Þannig að það var allavega vilji löggjafans þegar lögin eru sett 1996. Þannig að ég tel að bæði sjónarmið eigi einfaldlega mjög mikinn rétt á sér,“ segir hún spurð hvort almenna leiðin sé ekki að auglýsa embætti.

Katrín segist hafa kannað málið vel og velt báðum leiðum vel fyrir sér áður en hún hafi tekið þá ákvörðun að beita þeirri heimild að flytja Bryndísi á milli embætta. „Staðan er sú að báðir möguleikar eru heimilir samkvæmt lögunum og það var niðurstaða mín, meðal annars vegna sjónarmiða sem ég styð um aukinn hreyfanleika í stjórnsýslunni og fólk sé ekki ævilangt á sama stað, þá var þetta niðurstaðan núna.“

Ráðuneytisstjórar ítrekað skipaðir án auglýsingar

Bryndís tekur við sem ráðuneytisstjóri af Ragnhildi Arnljótsdóttur sem hverfur til starfa í utanríkisþjónustunni um áramótin. Ragnhildur tók við embættinu árið 2009 þegar Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra. Embættið var ekki auglýst þá heldur en Ragnhildur hafði áður verið ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu í ráðherratíð Jóhönnu.

Forveri Ragnhildar, Bolli Þór Bollason, tók við embætti ráðuneytisstjóra árið 2004 eftir að Halldór Ásgrímsson hafði tekið við sem forsætisráðherra af Davíð Oddssyni. Var Bolli fluttur úr fjármálaráðuneytinu og embættið ekki auglýst. Forveri Bolla, Ólafur Davíðsson, var hins vegar skipaður ráðuneytisstjóri eftir auglýsingu árið 1992.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert