Hitafundur í Blaðamannafélaginu

Hjálmar sýnir félagsmönnum tilboð SA frá 26. september, sem greidd …
Hjálmar sýnir félagsmönnum tilboð SA frá 26. september, sem greidd verða atkvæði um í næstu viku. mbl.is/​Hari

Hiti var í félagsmönnum Blaðamannafélags Íslands á fundi í höfuðstöðvum félagsins í hádeginu.

Tólf klukkustunda verkfall, sem hafði verið boðað meðal fé­lagsmanna sem starfa á mbl.is, vis­ir.is og fretta­bla­did.is, auk töku­manna og ljós­mynd­ara hjá Árvakri, Rík­is­út­varp­inu, Sýn og Torgi, var slegið af skömmu áður en það átti að hefjast kl. 10 í morgun.

Til stendur að samninganefnd Blaðamannafélagsins skrifi undir samningstilboð Samtaka atvinnulífsins frá 26. september síðar í dag og að samningurinn verði lagður fyrir félagsmenn í næstu viku.

„Þetta verður borið fyrir félagsmenn og þeir þurfa að taka afstöðu. Sá tímapunktur er kominn, að mati samninganefndarinnar, að hleypa félagsmönnum að borðinu. Samninganefndin hefur reynt eins og hún hefur getað en niðurstaðan er þessi, þótt hún sé vond og ekki að skapi samninganefndarinnar,“ sagði Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, í samtali við mbl.is í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert