Hefði hugsanlega átt að loka veginum

Sjö erlendir ferðamenn slösuðust í bílslysi á Skeiðarársandi á föstudag, …
Sjö erlendir ferðamenn slösuðust í bílslysi á Skeiðarársandi á föstudag, þar af þrír alvarlega. Ljósmynd/Sigurður Gunnarsson

Vegagerðin ræður því miður ekki við að hálkuverja langa kafla í skyndingu og þurfa vegfarendur því að vera viðbúnir mismunandi aðstæðum vega, þegar keyrt er í slæmu veðri. 

Þetta segir í skriflegu svari G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, þegar mbl.is óskaði eftir viðbrögðum við umkvörtunum at­vinnu­bíl­stjóra sem gerði Vega­gerðinni viðvart um gríðarlega hálku á þjóðveg­in­um við Skeiðar­ársand nokkr­um klukku­stund­um áður en þar varð al­var­legt bíl­slys í fyrradag. Lýsti bílstjórinn því að „manndrápshálka“ hefði verið á veginum og furðaði sig á því að ekki hefði verið brugðist við með því að salta veginn.

Aukið fjármagn þyrfti til að bæta vetrarþjónustu

Vegagerðin mun skoða tilvikið og meta hvort rétt hafi verið staðið að verki, en hugsanlega hefði mátt loka veginum, segir G. Pétur. Hann bætir við að tæki frá Vegagerðinni hafi farið um veginn um Skeiðarársand á föstudagsmorgun. Þá hafi „hálkuástand“ verið á veginum og brugðist við því með snjómokstri í samræmi við reglur. Ljóst er að vetrarþjónusta verði ekki aukin nema til þess komi auknar fjárveitingar, segir G. Pétur, og bætir við að vetrarþjónusta síðustu þrjá vetur hafi farið töluvert fram úr fjárheimildum.

Segir hann að Vegagerðin sé mjög þakklát fyrir allar ábendingar sem berist, líkar þeim sem bílstjórinn kom með. Hins vegar sé upplifun vegfarenda mjög mismunandi og því þurfi að meta ástand vega í því samhengi. Bendir hann á að Íslendingar séu jafnan meðvitaðir um að ástand vega geti snarbreyst á stuttum tíma, en það eigi gjarnan síður við um ferðamenn sem ekki eru kunnugir staðháttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert