Varaði Vegagerðina við „manndrápshálku“

Bílstjórinn segist ekki efast um það að orsök slyssins í …
Bílstjórinn segist ekki efast um það að orsök slyssins í gær hafi verið flughálka á veginum. Kort/mbl.is

„Maður veltir fyrir sér, ef það hefði verið tekið mark á þessari viðvörun þá hefði þetta slys kannski ekki orðið,“ segir atvinnubílstjóri sem gerði Vegagerðinni viðvart um gríðarlega hálku á þjóðveginum við Skeiðarársand nokkrum klukkustundum áður en þar varð alvarlegt bílslys í gær. 

Bílstjórinn hafði samband við mbl.is vegna málsins í dag, en hann vill gæta nafnleyndar sökum atvinnu sinnar. Segist hann aka á vel útbúnum og breyttum jeppa sem hann fari reglulega í jöklaferðir á.

„Ég er að keyra þarna á bíl sem hefur verið breytt sérstaklega til að keyra í erfiðum aðstæðum. Hann varla hélst á veginum og mér leist bara alls ekki á þetta. Um 12:40 hringi ég í Vegagerðina og segi við þá að ég hafi verið að keyra þarna á breyttum bíl, að ég sé atvinnubílstjóri og sé búin að vera það lengi. Ég segi við þá að aðstæður séu þannig að ef það verði ekki saltað þarna eða eitthvað gert eigi eftir að verða mjög slæmt slys, ég sagði það orðrétt að þetta væri bara manndrápshálka,“ segir bílstjórinn. 

„Þetta er ein versta hálka sem ég hef lent í á þjóðvegi eitt síðan ég byrjaði að starfa við þetta fyrir meira en áratug síðan. Það var bara virkilega erfitt að halda sér á veginum. Það er engin að fara segja mér það að þetta slys hafi ekki orðið út af þessari hálku,“ segir bílstjórinn en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi í gær var hvasst og fljúgandi hálka á slysstað.

Þrjú börn og einn fullorðinn voru flutt á Landspítalann eftir umferðarslys við Skeiðarársand á öðrum tímanum í gær, um einni og hálfri klukkustund eftir að bílstjórinn sem mbl.is ræddi við gerði Vegagerðinni viðvart um aðstæður á veginum. Tvö barnanna eru alvarlega slösuð og liggja enn á gjörgæslu. 

Segir ábyrgðina liggja einhvers staðar 

Bílstjórinn segist ekki efast um það að orsök slyssins í gær hafi verið flughálka á veginum. Hann segist hafa ekið aftur um Skeiðarársand í kjölfar slyssins og tekið eftir því að þá hafi verið byrjað að salta veginn. 

„Ég keyri þarna til baka seinni partinn og kem að slysinu. Þá voru þeir eitthvað aðeins byrjaðir að salta, eftir slysið, en ég held að þeir hafi ekki saltað neitt fyrir slysið því það var eiginlega alveg jafn hált. Það hefði bara verið hægt að skauta þarna, þetta var eins og skautasvell. Það hefði ekki verið hægt að standa í lappirnar eða labba yfir veginn án þess að vera á mannbroddum,“ segir bílstjórinn. 

Bílstjórinn segist eiga erfitt með að skilja hvers vegna Vegagerðin brást ekki við viðvörun hans. 

„Mér finnst eins og ábyrgðin verði að liggja einhvers staðar, mér finnst þetta bara ekki í lagi. Þeir fá þarna viðvörun frá atvinnubílstjóra sem er vanur að keyra á þessu svæði og finnst tilefni til að hringja og vara sérstaklega við þessu og segir þeim í rauninni nákvæmlega hvað komi til með að gerast á þessum vegi ef ekkert verði að gert,“ segir hann.

„Það er ekkert gamanmál að hringja þarna inn með svona viðvörun og koma svo að veginum lokuðum og vita að þarna hafi börn slasast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert