16 stiga frost á Þingvöllum

Það var kalt á Þingvöllum í nótt.
Það var kalt á Þingvöllum í nótt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Víða fremur hæg norðlæg átt í dag og á morgun, él um norðanvert landið en sú gula lætur sjá sig syðra. Kalt í veðri og frost um mestallt land, mesta frost mældist 16 stig síðustu nótt á Þingvöllum en sums staðar frostlaust við sjávarsíðuna, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Næstu daga eru fremur hægar og kaldar norðlægar áttir ríkjandi með dálitlum éljum en þurrt og bjart veður á sunnanverðu landinu.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s en norðaustan 8-13 norðvestan til. Él um norðanvert landið, einkum við ströndina, en víða léttskýjað syðra. Norðan 8-13 m/s annað kvöld. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á fimmtudag:
Norðaustan 8-13 á Vestfjörðum en hægari norðlæg átt annars staðar. Skýjað um norðanvert landið og dálítil él með ströndinni, en þurrt og bjart sunnan til. Frost víða 1 til 10 stig, mest inn til landsins.

Á föstudag:
Norðlæg átt 5-13 m/s, hvassast norðaustan til. Él einkum norðaustanlands, en bjartviðri um sunnanvert landið. Frost um land allt.

Á laugardag:
Hæg norðlæg átt, þurrt og víða bjart, en norðvestan 8-13 og dálítil él norðaustan til á landinu. Herðir á frosti.

Á sunnudag:
Hæg suðlæg átt og bjart með köflum en dálítil snjókoma suðaustanlands. Áfram kalt í veðri.

Á mánudag:
Snýst í norðlæga átt með stöku éljum norðanlands, annars þurrt. Frost um land allt.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir hæga breytilega átt með björtu og köldu veðri.

Veðrið á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert