Í helli þegar skjálftinn reið yfir

Páll Ásgeir Ásgeirsson í göngu á Úlfarsfelli fyrir nokkrum árum.
Páll Ásgeir Ásgeirsson í göngu á Úlfarsfelli fyrir nokkrum árum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Leiðsögumaðurinn og rithöfundurinn Páll Ásgeir Ásgeirsson var ásamt konu sinni staddur undir yfirborði jarðar í helli austan við Helgafell við Hafnarfjörð þegar seinni jarðskjálftinn, 5 að stærð, varð klukkan 10.30 í gær.

„Ef hellirinn hefði hrunið ofan á okkur þá var bara einn maður, Hjalti Björnsson, sem vissi hvar við vorum,“ segir í facebookfærslu Páls Ásgeirs. Hjalti er leiðsögumaður eins og Páll og kona hans Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Urðu ekki vör við skjálftann

Þau hjónin urðu ekkert vör við skjálftann ofan í hellinum og fréttu fyrst af honum í útvarpinu á heimleiðinni. „Við komum í bílinn aftur rétt fyrir klukkan 12 og þá urðum við undrandi þegar það var auglýstur sérstakur aukafréttatími um jarðskjálfta,“ segir Páll í samtali við mbl.is. Hann tekur þó fram að þau hafi orðið vör við einn smáskjálfta á meðan á ferðalaginu stóð. 

Umræddur hellir var í um 7 til 10 km fjarlægð frá upptökum skjálftans, að mati Páls.

Hann segir að þegar hann kom heim og kveikti á tölvunni hafi GPS-tæki hans sýnt staðsetningu þeirra „ef það hefði þurft að gera flókna leit að okkur“.

Páll spyr sig hvort þau hjónin hafi nokkuð verið í hættu þegar þau voru í hellinum og segir í því samhengi umhugsunarvert að flestir hraunhellar á Reykjanesskaga séu líklega mörg þúsund ára gamlir. „Kannski er ekkert hættulegt að vera í hellum í jarðskjálftum fyrst þeir standa enn uppi eftir nokkur þúsund ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert