Isavia sýknað af kröfum Kynnisferða

Isavia var í dag sýknað af kröfum Hópbifreiða í héraðsdómi Reykjavíkur. Ágreiningur félaganna sneri að gjaldtöku Isavia við svokölluð nærstæði en Hópbifreiðar kröfðust þess að veltugjald þeirra yrði lækkað úr 41,2% niður í 20,6% vegna verðlags á fjarstæðum.

Þegar Hópbifreiðar sömdu um þessi kjör var gjaldtaka ekki hafin á fjarstæðum, sem eru bílastæði fyrir hópbifreiðar fjær flugstöðinni, þó Hópbifreiðum hafi verið sú fyrirætlan ljós við samningsgerðina. Hópbifreiðar vildu að Isavia hefði gætt samræmis í gjaldtöku á nærstæðum og fjarstæðum. Dómkvaddur matsmaður sagði fyrir dómi að nærstæðin fælu í sér „sérstök gæði“ miðað við fjarstæðin.

Isavia segir gjaldtöku á fjarstæðum engu breyta

Hópbifreiðar vildu breyta samningnum og héldu því fram að gjaldtaka í fjarstæðunum hafi breytt aðstæðum svo mjög að það væri ósanngjarnt fyrir Isavia að bera samninginn við Hópbifreiðar fyrir sig. Isavia hélt því hins vegar fram að fyrirkomulag á fjarstæðum eigi ekki að hafa áhrif á rekstrarleyfissamninginn um nýtingu nærstæða.

Af hálfu Hópbifreiða var því einnig haldið fram að Isavia hefði verið í slíkri yfirburðastöðu við samningsgerð að það væri ósanngjarnt að bera ákvæði í samningnum fyrir sig.

Hæstiréttur hafnaði kröfum Hópbifreiða og benti meðal annars á að félagið hafi haft mikla þekkingu á aðstöðunni sem var boðin út enda meira og minna sinnt þjónustunni síðan 1979. Hópbifreiðar hafi heldur ekki tekist að sanna að verðlagning á fjarstæðum hafi verið forsenda við samningsgerð þeirra þannig að verðlag á fjarstæðum hefði áhrif á rekstrarleyfissamning milli Isavia og Hópbifreiða um afnot af nærstæðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert