Mennirnir báðir áfram í einangrun

Mennirnir voru báðir leiddir fyrir dómara í dag.
Mennirnir voru báðir leiddir fyrir dómara í dag. mbl.is/Arnþór

Tveir karlmenn á þrítugsaldri, sem grunaðir eru um að hafa skipulagt hryðjuverk hér á landi, hafa báðir verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald næstu tvær vikurnar. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, í samtali við mbl.is.

Áður hafði verið greint frá því að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði fallist á beiðni héraðssaksóknara um að framlengja varðhald yfir öðrum þeirra, en nú hefur krafa um lengra varðhald yfir hinum einnig verið samþykkt.

Þá var fallist á kröfu um einangrun, en mennirnir hafa báðir setið í einangrun frá því þeir voru handteknir, þann 21. september síðastliðinn.

Lögmenn mannanna hafa gagnrýnt það hve lengi þeir hafa verið í einangrun en í samtali við mbl.is fyrr í vikunni sagði Ólafur að talin væri þörf á einangrun vegna rannsóknarhagsmuna í málinu.

Ekki væri gerð krafa um einangrun nema það væri tilefni til. Lögregla gæti svo aflétt slíkum takmörkunum ef ekki væri talin þörf á þeim lengur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert