Talin þörf á að mennirnir séu í einangrun

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir að lögreglan geti dregið úr …
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir að lögreglan geti dregið úr þeim takmörkunum sem kveðið er á um í úrskurði dómara. mbl.is/Árni Sæberg

Þörf á einangrun þegar fólk sætir gæsluvarðhaldi er metin út frá rannsóknarhagsmunum og stöðu rannsóknar hverju sinni. Í tilfelli mannanna tveggja sem sætt hafa gæsluvarðhaldi í tæpar tvær vikur vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka og vopnalagabrot, er talin þörf á einangrun, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara.

„Það eru rannsóknarhagsmunir sem stýra því hvað við erum með takmarkanir lengi á viðkomandi aðila. Þetta er síðan alltaf borið upp við dómara við uppkvaðningu úrskurðar um gæsluvarðhald og getið í úrskurði dómara hvaða takmarkanir eru leyfðar, þar með talin einangrun. Þannig lögreglan getur, ef svo ber undir dregið úr takmörkunum,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Lögmenn mannanna hafa gagnrýnt hve lengi þeir hafa verið í einangrun, en þeir hafa sætt einangrun síðan þeir voru handteknir, þann 21. september síðastliðinn. Gæsluvarðhald yfir mönnunum rennur út 6. október næstkomandi.

Lögregla getur dregið úr takmörkunum 

Aðspurður hvort það séu engin önnur úrræði sem hægt væri að nýta í stað einangrunar, segir Ólafur alltaf farið yfir það hvort ástæða sé til að beita einangrun þegar um er að ræða rannsóknir mála.

„Það ræðst bara af stöðu rannsóknar og rannsóknarhagsmunum hvort óskað sé einangrunar eða ekki. Það fer fram mat á því hvor einangrunar er þörf eða ekki. Við beiðumst ekki einangrunar nema við teljum ástæðu til að beita henni,“ segir Ólafur.

Aðspurður hvort gera megi ráð fyrir að mennirnir munu sæta einangrun þar til gæsluvarðhald yfir þeim rennur út segir hann:

„Okkur er heimilt að beita einangrun ef svo mælt er fyrir í úrskurði dómara, en það eru dæmi um það að takmörkun sé aflétt fyrr ef lögregla telur ekki ástæðu til að viðhalda takmörkunum. Við getum ekki beitt harðari aðgerðum nema dómari leyfi, en við getum dregið úr ef við teljum ekki lengur ástæðu til að beita takmörkunum, eins og einangrun.“

Ólafur vill ekki svara því hvort að mennirnir komi til með að þurfa að sæta einangrun áfram ef gæsluvarðhald yfir þeim verður framlengt.

Líkur á að varðhald verði framlengt

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is líkur því að farið verði fram á að gæsluvarðhald yfir mönnunum verði framlengt.

„Já, það kemur alveg til álita. Það fer eftir því hver staða rannsóknarinnar verður.“

Grímur segir rannsóknina ganga vel.

„Það eru margir sem vinna við hana og hún gengur bara mjög vel. Það er ennþá unnið við hana frá þessum þremur embættum,“ segir Grímur og vísar þar til ríkislögreglustjóra, héraðssaksóknara og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is