Koma ekki köld að rannsókninni

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Þórður

Engar verulegar breytingar fylgja tilfærslu rannsóknarforræðis á rannsókn á ætluðum undirbúningi að hryðjuverkum, frá ríkislögreglustjóra yfir til embættis héraðssaksóknara, að sögn héraðssaksóknara. 

„Við komum ekki alveg köld að þessu. Við höfum verið inni í rannsókninni frá fyrsta degi,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is.

Tilkynnt var á upplýsingafundi lögreglu fyrr í dag að Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hefði óskað eftir því að segja sig frá rannsókninni vegna vanhæfis. Ástæða þess er sú að faðir hennar, Guðjón Valdimarsson, hefur verið nefndur á nafn í sambandi við rannsóknina.

Rík­is­sak­sókn­ari féllst á beiðnina og flutti rann­sókn­ar­for­ræði máls­ins frá rík­is­lög­reglu­stjóra yfir til embætt­is héraðssak­sókn­ara.

Beiðnin barst í gærmorgun

Starfsmenn embættis ríkislögreglustjóra munu áfram koma að rannsókn málsins undir stjórn héraðssaksóknara. Er það heimilt samkvæmt 8. gr. lögreglulaga sem kveður á um að starfsmenn þess lögreglustjóra sem vanhæfur er geti rannsakað mál undir stjórn annars lögreglustjóra.

Að sögn héraðssaksóknara barst beiðnin um flutning málsins í gærmorgun. 

Aðspurður kvaðst Ólafur Þór ekki geta tjáð sig um það hvort faðir Sigríðar hefði verið tekinn til yfirheyrslu. Þá kvaðst hann almennt ekki geta tjáð sig um stöðu rannsóknarinnar.

mbl.is