Ríkislögreglustjóri sagði sig frá rannsókninni

Frá upplýsingafundinum.
Frá upplýsingafundinum. mbl.is/Arnþór

Ríkislögreglustjóri óskaði eftir því við embætti ríkissaksóknara í gær að segja sig frá rannsókn á meintum undirbúningi hryðjuverka hér á landi vegna þess að einstaklingur sem tengist ríkislögreglustjóra fjölskylduböndum hefur verið nefndur í sambandi við málið. Ríkissaksóknari féllst á beiðnina og flutti rannsóknarforræði málsins frá ríkislögreglustjóra yfir til embættis héraðssaksóknara.

Þetta kom fram á upplýsingafundi lögreglu vegna málsins.

„Ríkislögreglustjóri sagði sig frá málinu um leið og þessar upplýsingar lágu fyrir vegna mögulegs vanhæfis,“ sagði Sveinn Ingiberg Magnússon, yfirlögregluþjónn hjá embætti héraðssaksóknara, á fundinum.

17 húsleitir

Lögreglan hefur farið í 17 húsleitir vegna málsins og lagt hald á um 60 muni. Við húsleitirnar fundust tugir skotvopna, þar á meðal voru örfá þeirra þrívíddarprentuð. Stór hluti var verksmiðjuframleiddur.

Fleiri menn en þeir fjórir sem í upphafi voru handteknir vegna málsins hafa verið handteknir að undanförnu en enginn þeirra hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Mennirnir tveir sem eru í gæsluvarðhaldi eru í einangrun. Gæsluvarðhald yfir öðrum þeirra hefur verið framlengt til 6. október.

Hættustig vegna hryðjuverkaógnar á Íslandi er enn metið lágt, að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns.

Átta teymi að störfum

Sveinn sagði umfang málsins vera þannig að það tæki lögreglu nokkurn tíma að fara yfir gögnin sem voru haldlögð og munina. Átta teymi eru að störfum út frá mismunandi þáttum rannsóknarinnar. Meðal annars þarf að skoða þrívíddarprentarana, rafræn gögn og vopnin sem voru haldlögð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert