Faðir ríkislögreglustjóra tengdur rannsókninni

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðjón Valdimarsson, faðir Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra, hefur verið nefndur í sambandi við rannsókn er varðar ætlaðan undirbúning til hryðjuverka.

Stundin greindi fyrst frá, en mbl.is hefur einnig heimildir fyrir því að málið varði föður ríkislögreglustjóra. Málið þykir allt hið vandræðalegasta fyrir ríkislögreglustjóra og embætti hennar, sem neyddist til þess að segja sig frá rannsókn á málinu, sem kynnt var sem eitt alvarlegasta mál sem komið hefði til kasta lögreglu. Lögregla taldi að þar hefði vofað yfir hryðjuverkaárás og voru bæði Alþingi og lögregla nefnd sem möguleg skotmörk.

Í gær óskaði ríkislögreglustjóri eftir því við embætti ríkissaksóknara að segja sig frá rannsókn málsins er varðar ætlaðan undirbúning til hryðjuverka. Ríkissaksóknari féllst á beiðnina og flutti rannsóknarforræði málsins frá ríkislögreglustjóra til embættis héraðssaksóknara.

Ástæða þessarar beiðni voru upplýsingar þess efnis að einstaklingur, sem tengdur er ríkislögreglustjóra fjölskylduböndum, hefði verið nefndur í sambandi við rannsókn lögreglu. Frá þessu var greint á upplýsingafundi lögreglu fyrr í dag. 

„Rík­is­lög­reglu­stjóri sagði sig frá mál­inu um leið og þess­ar upp­lýs­ing­ar lágu fyr­ir vegna mögu­legs van­hæf­is,“ sagði Sveinn Ingi­berg Magnús­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá embætti héraðssak­sókn­ara, á fundinum.

Einstaklingurinn var ekki nefndur á nafn.

Eitt stærsta vopnasafn í einkaeigu

Ekki liggur fyrir hver tengsl Guðjóns við málið eru. Þekkt er að hann á umfangsmikið vopnasafn og hefur auk þess rekið vopnasölu á netinu um 15 ára skeið, eftir því sem næst verður komist. 

Í athugasemd við lagafrumvarp um vopn, sprengiefni og skotelda, sem hann sendi inn árið 2012, sagði hann skotvopnasafnið sitt vera eitt það stærsta í einkaeigu á Íslandi. Kvaðst hann hafa fest verulega fjármuni í kaup á vopnum og taldi hann safnið vera að verðmæti um 40 milljónum króna. Hann tók einnig fram að vopnasafnið væri geymt í sérhönnuðu húsnæði og að vopnin væru öll skráð og fyrir þeim leyfi lögum samkvæmt.

Líkt og fram kom á blaðamannafundi lögreglu fyrr í dag var stærstur hluti þeirra skotvopna, sem fundust í aðgerðum lögreglunnar á fimmtudag fyrir viku, verksmiðjuframleiddar byssur og voru jafnframt löglega skráðar. Ekkert var uppi látið um á hvern eða hverja byssurnar hefðu verið skráðar.

Heimildir mbl.is herma að skotvopnaeign Guðjóns hafi lengi legið fyrir, en ekkert hefur þótt benda til annars en að allt væri það samkvæmt lögum og reglum, líkt og hann nefndi í athugasemdinni. Hins vegar hafi fjöldi skotvopna í hans eigu valdið áhyggjum, en byssur í fórum hans eru sagðar skipta hundruðum.

Umræða um skotvopnaeign í landinu vaknaði í kjölfar hinnar hörmulegu skotárásar á Blönduósi í liðnum mánuði. Þá kom fram að til stæði að breyta vopnalöggjöfinni, þar á meðal hvað áhrærði vopnasafnara. Þeir væru ekki margir mjög stórtækir, en heimildarmaður blaðsins gat þess m.a., að sú staðreynd að faðir ríkislögreglustjóra væri þar efstur á blaði hefði ekki einfaldað málið.

Sigríður Björk gaf ekki kost á viðtali þegar eftir því var leitað í dag. Þá hefur heldur ekki náðst í Guðjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert