Allt að 265% verðmunur á milli verslana

Mikill verðmunur er á matvöru milli verslana.
Mikill verðmunur er á matvöru milli verslana. Samsett mynd

Munur á lítraverði af fljótandi þvottaefni er allt að 265% milli verslana. Meðalverð á matvöru í Bónus er það lægsta á landinu samkvæmt verðkönnun verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands sem fór fram þann 28. mars. Meðalverð var hæst í Heimkaup og Iceland.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ASÍ. 

Verð á matvöru í Bónus eru að meðaltali 4% yfir lægsta verði og verð í Krónunni 8%. Meðalverð í Fjarðarkaup var 13% frá því lægsta, Nettó 15% og Kjörbúðin og Hagkaup 22%. Í Iceland er meðalverð 35% yfir lægsta verði og í Heimkaup 36%.

Hilluverð á 140 vörum var skráð niður og borið saman á milli búða. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

60% verðmunur á nautalund

Á frosinni nautalund fannst 60% munur á hæsta og lægsta kílóverði, sem var 4.999 krónur í Nettó og 7.899 krónur í Fjarðarkaupum.

166% munur fannst á lægsta kílóverði á rauðkáli í krukku eða dós, 206% verðmunur á hæsta og lægsta kílóverði af frosnu mangói, 117% munur á kílóverði af haframjöli og 265% munur á lítraverði af fljótandi þvottaefni frá Neutral.

Mikill verðmunur var á vörum af sömu frá sama vörumerki. Til að mynda var 48% munur á hæsta og lægsta verði á Hellmanns majonesi sem kostaði minnst, 399 krónur í Fjarðarkaup og mest í Hagkaup, 589 kr.

Grettir, ostur frá Goðadölum, kostar 1.035 krónur í Fjarðarkaup en 1.759 krónur í Iceland, um 70% verðmunur.

Frekari upplýsingar um könnunina má nálgast á vef ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert