Dæmdur fyrir að hóta að sprengja lögreglustöð

Maðurinn var dæmdur í 12 mánaða fangelsi, auk þess að …
Maðurinn var dæmdur í 12 mánaða fangelsi, auk þess að þurfa að greiða áfrýjunarkostnað upp á rúma eina og hálfa milljón króna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms þar sem maður var sakfelldur fyrir líkamsárás, húsbrot, brot gegn nálgunarbanni, eignaspjöll, brot gegn sóttvarnalögum, brot gegn valdstjórninni, fyrir að gabba lögreglu, brot gegn vopnalögum, skjalafals og umferðarlagabrot.

Ákærði neitaði sök samkvæmt öllum ákæruliðum. Hann var dæmdur í 12 mánaða fangelsi, auk þess að þurfa að greiða áfrýjunarkostnað upp á rúma eina og hálfa milljón króna, að því er segir í dómi Landsréttar.

Til frádráttar refsingunni kom gæsluvarðhaldsvist sem hann hafði sætt frá 17. mars 2022 til 16. júní 2022, auk þess sem gerð var upptæk útdraganleg kylfa. 

Gabbaði lögreglu tvívegis

Maðurinn var meðal annars dæmdur fyrir að gabba lögreglu tvívegis 16. mars 2022 með því að hafa sent tölvupóst á netfang embættis lögreglustjóra og hótað því að sprengiefni væri í húsnæði lögreglustjórans.

„THE BUILDINGIS RIGGED WITH EXPLOSIVES PLEASE EVACUATE THE BUILDING,“ skrifaði maðurinn í tölvupóstinum.

91 tilvik til meðferðar lögreglu

Málið var upprunalega höfðað í þremur ákærum: Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 5. apríl 2022, með ákæru héraðssaksóknara 9. maí 2022 og með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum 14. apríl 2020.

Málin voru sameinuð og rekin sem eitt mál í Landsrétti.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði frá því í mars í fyrra kemur fram að á ár­un­um 2017-2021 hafi lög­regla haft til meðferðar alls 91 til­vik þar sem maður­inn var grunaður um refsi­verða hátt­semi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert