Málsmeðferð í september þrátt fyrir flýtimeðferð

Landeigendur freista þess að fá fellt úr gildi með dómi …
Landeigendur freista þess að fá fellt úr gildi með dómi leyfi sem Fiskistofa veitti árið 2022 og sömuleiðis heimild Umhverfisstofnunar fyrir Hvammsvirkjun frá því fyrr í þessum mánuði. mbl.is/Golli

Mál landeigenda við bakka Þjórsár gegn íslenska ríkinu og Landsvirkjun verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun september þrátt fyrir flýtimeðferð sem dómstóllinn heimilaði. 

Þetta segir Friðleifur E. Guðmundsson, lögmaður landeigendanna ellefu, í samtali við mbl.is í kjölfar þess að málið var þingfest í gær. 

Höfðuðu landeigendurnir málið til að freista þess að fá fellt úr gildi með dómi leyfi sem fiskistofa veitti árið 2022 og sömuleiðis heimild Umhverfisstofnunar fyrir Hvammsvirkjun frá því fyrr í þessum mánuði.  

Réttarhlé hefur áhrif á flýtimeðferð málsins 

Ástæða þess að málið verður ekki flutt fyrr en í september, þrátt fyrir flýtimeðferð, er sú að í lok júní hefst réttarhlé sem stendur fram í byrjun september. 

Spurður hvort það að málsmeðferðin fari ekki fram fyrr en í september hafi ekki áhrif á málið, sérstaklega í ljósi þess að Orkustofnun hyggst halda áfram afgreiðslu virkjunarleyfisins, svarar Friðleifur því til að landeigendurnir hafi farið fram á það við þingfestingu að málið yrði flutt fyrir réttarhlé. 

„Þetta er flýtimeðferðarmál þannig að það náttúrulega sér það hver maður að ef dómstóllinn fer síðan í tveggja mánaða frí, þá hefur það áhrif á flýtimeðferðina. En dómari féllst ekki á þau rök og ákvað þetta svona, þannig að við vonum að það verði ekkert haldið áfram með málið að öðru leyti á meðan þetta mál er til meðferðar.“

„Spurning hversu fljótir þeir eru að vinna þetta“

Áttu von á því að það verði ekki haldið áfram með málið?  

„Það þarf náttúrulega að gefa út leyfið og svo tekur við fjögurra vikna umsóknarfrestur þegar og ef leyfið verður gefið út, svo þarf að vinna úr umsögnunum, þannig að það er spurning hversu fljótir þeir eru að vinna þetta. Það er ekki búið að gefa út leyfið,“ segir Friðleifur og bætir við: 

„Það væri nokkuð brött tímalína ef þeir byrja framkvæmdir á þessu tímamarki, en við viljum bara flýta þessu máli og erum tilbúin að flytja málið strax í dag ef þess þarf.“

Dómarinn í málinu að öllum líkindum vanhæfur

Friðleifur segir það svo flækja málin enn frekar að líklegast sé dómarinn í málinu vanhæfur vegna tengsla við lögmann Landsvirkjunar. Næstu skref séu því að dómarinn úrskurði um eigið hæfi. 

„Mér finnst nú líklegt að það verði skipt um dómara í málinu.“

Tefur það málið enn frekar?

„Ég vona það svo sannarlega ekki. Það á ekki að gera það. Við ræddum þetta strax í þinghaldinu að það ætti ekki að hafa nein áhrif,“ segir Friðleifur sem lítur ekki á lögmannsvalið sem bragð til að tefja málið. „Þetta er bara óheppilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert