„Stjórnvöld láti af sjúklegri undirgefni sinni“

Sólveig Anna er hún flutti ræðu sína.
Sólveig Anna er hún flutti ræðu sína. mbl.is/Árni Sæberg

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skaut föstum skotum á íslensk stjórnvöld í ræðu sinni á Ingólfstorgi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. Hún sagði þau þjást af sjúkri undirgefni þegar kemur að ástandinu á Gasasvæðinu og hvatti þau til að fordæma ísraelsk stjórnvöld.

Sólveig Anna las hún upp úr ljóðinu Maístjörnunni og tileinkaði textann fólkinu á Gasasvæðinu. Í framhaldinu talaði hún um að valdastétt vesturveldanna væri „sálsjúk og spillt” og bætti við að meira en 34 þúsund manneskjur hefðu verið „myrtar af ísraelskum stjórnvöldum með stuðningi Bandaríkjanna og valdastéttar Evrópu“. Það væri því sem næst óbærilegt að tala um fjölda látinna.

Margt var um manninn á Ingólfstorgi.
Margt var um manninn á Ingólfstorgi. mbl.is/Árni Sæberg

„En við megum ekki fyllast deyfð þegar við stöndum frammi fyrir svo skelfilegum atburðum. Við verðum að standa saman og krefjast þess öll sem eitt að íslensk stjórnvöld láti af sjúkri undirgefni sinni gagnvart Bandaríkjunum og standi með fólki í Palestínu á alþjóðavettvangi,” sagði Sólveig Anna.

Hún hvatti jafnframt til þess að „íslensk stjórnvöld fordæmi glæpi Ísraelsríkis og krefjist samstundis vopnahlés og þess að fólkið í Palestínu fái að lifa frjálst í eigin fagra landi”.

Ólíkur uppruni ekki vandamál

Í ræðu sinni hrósaði Sólveig Anna Eflingarfólki fyrir eljusemi sína og fyrir að hafa fengið valdastétt Íslands til að taka tillit til hagsmuna stéttarfélagsins á nýliðnum vetri og fyrir að vekja athygli á því að kúgun og arðrán yrði ekki liðið.

Hún sagði afar mikilvægt að Efling liti ávallt á það sem sameinaði félagið en aldrei á það sem skildi félagsfólk þess að.

„Við í Eflingu höfnum lyginni um að ólíkur uppruni sé vandamál í mannlegum samskiptum. Við sjáum hann þvert á móti sem styrkleika,” sagði hún.

„Fjölbreytni okkar og samstaða er raunverulegt hreyfiafl breytinga og framfara í íslensku samfélagi,” bætti hún við.

„Við þolum ekki að vera kúguð, við þolum ekki að vera undirsett, við þolum ekki að vera lítilsvirt.”

Sólveig Anna sagði jafnframt vinnuaflið skapa verðmætin og viðhalda öllu samfélaginu.

„Vinnuaflið okkar mun gera okkur ósigrandi.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert