Gagnrýnir Guðlaug Þór – „Díllinn er súr“

Karl Arnar Karlsson er framkvæmdastjóri Loftmynda ehf.
Karl Arnar Karlsson er framkvæmdastjóri Loftmynda ehf. Samsett mynd

Karl Arnar Karlsson, framkvæmdastjóri Loftmynda ehf., segir ummæli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, um niðurstöður útboðs á loftmyndatöku á Íslandi standast enga skoðun.

Guðlaugur Þór ræddi niðurstöðurnar í Morgunblaðinu á dögunum og í aðsendri grein í blaðinu í morgun hefur Karl Arnar ýmislegt út á ummæli ráðherrans að setja.

„Algjörlega út í hött“

Hann segir það „algjörlega út í hött” að bera kostnaðartölur vegna núverandi samnings ríkisins við Loftmyndir ehf. saman við niðurstöður útboðsins, líkt og Guðlaugur Þór hafi gert.

„Annars vegar er um að ræða kaup á þjónustu þar sem allt er innifalið en hins vegar illa skilgreinda óvissuferð á kostnað skattgreiðenda sem enginn veit hvað kemur til með að kosta þegar upp er staðið,” segir Karl Arnar og bætir við að engar fjárheimildir séu frá Alþingi til verksins.

Jafnframt segir hann að misskilnings gæti hjá Guðlaugi Þór um að útboðið snúist um að taka nýjar loftmyndir af öllu Íslandi. Erlendu fyrirtækin sem samið var við muni hafa viðvöru hér í allt að þrjá mánuði á ári næstu þrjú árin. Á þeim tíma verði reynt að mynda eins mikið og hægt er. Til samanburðar hafi það tekið Loftmyndir efh. níu ár að klára að mynda allt Ísland.

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einnig segir Karl Arnar núverandi þjónustusamning ríkisins við Loftmyndir efh. mun hagstæðari fyrir ríkissjóð en niðurstöður útboðsins.  

„Með samanburði á núverandi fyrirkomulagi við það sem boðið var út má öllum vera ljóst að díllinn er súr og á endanum mun kostnaður ríkisins vera umtalsvert hærri en niðurstöður útboðsins gefa til kynna.”

Segir Guðlaug vilja ríkisvæða starfsemina

Hann segir Guðlaug Þór sömuleiðis vilja ríkisvæða starfsemina, sem skjóti skökku við þar sem flokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn, hafi hingað til gefið sig út fyrir að standa með einkaframtakinu en ekki berjast gegn því.

Í lok greinarinnar segir Karl Arnar að „ráðherra stendur fastur fyrir í brúnni með kíkinn fyrir blinda auganu og svarar ekki erindum um samtal”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert