Ræddu Hoyvíkursamninginn í Þórshöfn

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Høgni Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Høgni Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, eftir fund þeirra í Tinganesi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Framkvæmd fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja var til umræðu á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Høgna Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, í Þórshöfn í vikunni.

Hoyvíkursamningurinn, sem tók gildi árið 2006er víðtækasti fríverslunarsamningur sem þjóðirnar hafa undirritað.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu en þar segir að samningurinn leggi grunn að viðskiptasambandi Íslands og Færeyja sem hafi vaxið jafnt og þétt frá gildistöku, hvað varðar vörur og þjónustu.

Kynnti sér vindorkuvinnslu og virkjun sjávarfalla

Ráðherrarnir skipa Hoyvíkurráðið sem kemur reglulega saman til að ræða framkvæmd samningsins en ráðið er auk þess vettvangur til að ræða önnur málefni er varða viðskipti landanna, t.d. samstarf í sjávarútvegi og fiskveiðum.

Í tilkynningunni segir að Utanríkisráðherrarnir hafi verið sammála um ágæti samningsins, sem hafi verið til hagsbóta fyrir eyjurnar tvær.

Í heimsókn sinni til Færeyja heimsótti Þórdís orkufyrirtækið SEV, sem er í eigu sveitarfélaganna í Færeyjum, til að kynna sér vindorkuvinnslu og virkjun sjávarfalla. Hún flutti einnig ávarp á flugvellinum í Vágum, í tilefni fyrsta áætlunarflugs Icelandair til Færeyja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert